138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:16]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að tala um greinargerðina í heild sinni. Auðvitað er hún býsna hressileg. Þar er komið víða við og hún tekur afstöðu til margra ólíkra þátta en það er eins og gengur. Hún er á ábyrgð þeirra sem sömdu tillöguna. Nú fer málið eftir fyrri umræðu til nefndar sem vinnur málið og sendir það svo frá sér aftur o.s.frv. þannig að það er allt í höndum þingsins. Tillagan er komin fram, ég styð hana. En eins og ég sagði, ég mundi ekki skrifa upp á greinargerðina eins og hún er sett fram af því að þar er verið að blanda svo ólíkum hlutum saman eins og stöðugleikasáttmála, lögmæti, hinum og þessum hlutum sem er allt annarra að skera úr og meta heldur en okkar. Það er einfalt mál að þetta snýr að þessu tiltekna máli og ég hef talað alveg skýrt í því allan tímann. Við fengum mjög fína yfirferð yfir þetta hjá skipulagsstjóra strax daginn eftir að þessi ákvörðun var tekin. Ég er hins vegar mjög bjartsýnn á að þetta gangi hratt og vel fram og við munum verða vitni að vígslu fyrsta kerskálans í Helguvík fljótlega.