138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:19]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég held að þessi ákvörðun hafi ekki nokkur einustu áhrif á erlenda fjárfestingu hingað til lands. Þetta er bara ein stök ákvörðun og ég sagði áðan: Við skulum heldur ekki tala upp eða niður mikilvægi eða gildi þessarar ákvörðunar á málið eða önnur mál í heild sinni. Það er engin ástæða til að dramatísera allt úr hófi fram. Við skulum ræða þetta eins og það er. Hún hefur tiltekin áhrif fyrir þá sem eru mjög áfram um framkvæmdirnar. Okkur þykir hún óheppileg og höfum talað opinskátt um það en hún er tekin á ákveðnum forsendum o.s.frv. Þetta varðar miklu stærra mál í heild sinni sem er raforkuflutningar og raforkuöryggi á Reykjanesinu öllu og fullt af öðrum framkvæmdum og raforku til íbúanna sjálfra. Línur hafa þarna slegið út og það hafa verið ákveðin afföll á rafmagnsflutningsgetu. En ég held að þetta þurfi ekki að hafa áhrif á erlenda fjárfestingu. Það er svo fjöldamargt í kortunum, eins og ég rakti lítillega áðan, á vettvangi stjórnvalda sem hefur verið að gerast til að laða að erlenda fjárfesta.

Eitt af því sem skiptir mjög miklu máli er rammalöggjöf, frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra er að vinna að um fjárfestingarsamninga þannig að það sé gagnsætt og almennt ferli sem fer af stað við gerð fjárfestingarsamninga. Það er verið að vinna að heildstæðri orkunýtingarstefnu. Það er verið að ljúka við gerð á rammaáætlunum um náttúruvernd og nýtingu þannig að það er einmitt akkúrat verið að draga upp miklu skarpari og skýrari mynd af því hvernig umhverfi fjárfestar koma hérna að. Ég held að í það heila verði það sem hefur verið að gerast til að laða mjög að erlenda fjárfestingu til Íslands á næstu missirum í akkúrat þessum greinum.