138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar afstöðu Vinstri grænna. Ég lýsti því yfir í ræðu minni rétt áðan að ég geti vel skilið þá afstöðu sem flokkurinn hefur í þessum málum. Það breytir bara ekki því að í Þjóðarbúskapnum, sem hér hefur verið lagður fram, sem fjármálaráðuneytið leggur fram fyrir þing og þjóð, er sérstaklega tekið fram að gert sé ráð fyrir þessum framkvæmdum. (Gripið fram í.) Síðast þegar ég vissi var hæstv. fjármálaráðherra í flokki vinstri grænna og ég held að það hafi ekki orðið neinar breytingar á því frá því að þetta plagg var samþykkt til dagsins í dag. Það er því eitt sem fjármálaráðherrann lætur frá sér fara og stefnir að og svo er annað sem virðist vera upp á teningnum þegar kemur að umhverfisráðuneytinu. Síðan vitum við og þekkjum auðvitað afstöðu Samfylkingarinnar sem var lýst svo ágætlega hér í umræðunum áðan.

Hvað varðar afstöðu Sjálfstæðisflokksins, hvað þarf að gera, kemur sú afstaða mjög skýrt fram í þeim tillögum um efnahagsmál sem við lögðum fram í síðustu viku, til hvaða aðgerða þarf að grípa. Þar er ekki með nokkru gefinn neinn afsláttur, hvorki á umhverfismati né þeim reglum sem þurfa að vera í samfélaginu um fjárfestingar og atvinnustarfsemi, enda er ekki um slíkt að ræða hér í þessari umræðu. Skipulagsstofnun hafði komist að niðurstöðu með faglegum hætti. Ríkisstjórnin hafði gert samkomulag við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Þúsundir manna ganga atvinnulausar. Það er það sem er undir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mjög skýra stefnu í þessum málum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá stefnu að við ætlum að nýta þau tækifæri sem við eigum, við ætlum að nýta þær auðlindir sem við höfum aðgang að á skynsamlegan og ábyrgan hátt þar sem fara saman nýting og verndun. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að þessir þættir verði ekki í sundur skildir. Það skiptir líka miklu máli að það sé festa í stjórnsýslunni, (Forseti hringir.) að ekki gerist hlutir eins og gerðust einmitt í því máli sem hér er til umræðu.