138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að mótmæla því sem hv. þingmaður sagði að hæstv. umhverfisráðherra ætti ekki að hugsa 2.000 ár fram í tímann og hugsa um daginn í dag. Hún á að sjálfsögðu að hugsa um daginn í dag og hún hefur náttúrlega gert allt sem hún mögulega getur til að koma í veg fyrir og hræða fjárfesta frá framkvæmdum á Íslandi þegar íslenska þjóðin þarf svo mikið á því að halda að fá vinnu. En með því að virkja á Íslandi er hæstv. umhverfisráðherra einmitt að hugsa 2.000 ár fram í tímann.

Það kom fram hjá forvera hennar að Kárahnjúkavirkjun hefði sparað sexfalda mengun Íslendinga af umferð, hefði sparað mannkyninu þá mengun með því að vera staðsett á Íslandi, það álver í stað þess að vera í Kína þar sem kolum er mokað í ofnana til að framleiða rafmagnið. Það kom líka fram hjá Nóbelsverðlaunahafa sem fékk Nóbelsverðlaun í umhverfisfræðum, Pachauri, sem sagði nákvæmlega það sama, að ef þarf að framleiða ál yfirleitt þá er betra að gera það með endurnýjanlegri orku heldur en nota kolabrennslu. Við búum jú öll á sama hnettinum. Ef þið hafið gert eitthvað til að minnka útblástur í heiminum hví þá ekki, jafnvel þó það sé til að framleiða ál. Þessu hef ég margoft haldið fram. Íslendingar eru með hreina orku og við eigum að bjóða mannkyninu, ef hæstv. umhverfisráðherra hugsaði 2.000 ár fram í tímann og mundi muna að Kínverjar og Íslendingar búa á sama hnetti, þá mundi hún bjóða mannkyninu að Íslendingar framleiði eins og þeir mögulega geti án þess að ganga á hlut náttúrunnar.