138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:05]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir, það skiptir öllu máli að hafa fókusinn á það sem er að gerast, á líðandi stund. Íslensk þjóð getur eins og einstaklingar lent í ýmsu. Aðalatriðið er hvernig menn komast út úr því, ekki í hverju þeir lenda heldur hvernig þeir komast út úr því. Það er það sem á að skipta máli í afstöðu hæstv. ríkisstjórnar sem er því miður eins og partasala á gömlum tegundum sem eru úreltar, seldar hugmyndir sem passa ekki inn í nútímann.

Ég er ekki að mæla með álverum sérstaklega, síður en svo. En við verðum að nýta þá möguleika sem við höfum. Ég geri stóran mun á þeim sem leigja orkuna eða hinum sem eiga hana og íslensku orkuverin eru okkar bankainnlegg, eru okkar banki inn í framtíðina sem verður ekki verðfelldur. Það er gott dæmi um sýndarmennskuna í þessu þegar dregnar voru lappirnar til að mynda gagnvart Alcoa á Íslandi. Alcoa ætlaði að færa mikla fjármuni inn í íslenskt samfélag en nennti ekki að standa í strögglinu og þrasinu við íslenska embættiskerfið og íslensk stjórnvöld, byggði verksmiðju í Arabíu. Hefur það ekki áhrif á okkur eins og annars staðar í heiminum? Eftir að álver eða hvað sem er er komið í gang eru áhrifin komin um allan heim eftir 10 daga. Við getum ekki lokað augunum fyrir því.

Það er auðvitað út af fyrir sig umhverfisvernd að nýta íslenska orku í stóriðju hvort sem það er gagnaver eða önnur vinnsla sem skapar atvinnu. Við þurfum bara á atvinnu að halda.