138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man ekki til þess að ég hafi haldið því fram að engin gögn hafi legið fyrir í málinu. Er hæstv. ráðherra að halda því fram að Skipulagsstofnun hafi tekið sínar ákvarðanir á grundvelli engra gagna? Ég trúi því varla að ráðherrann taki svo stórt upp í sig. Ég hef lengi starfað viðloðandi sveitarstjórnarmál. Ég þekki skipulagslögin ágætlega, ég er lögfræðingur sem hef ágætisþekkingu á stjórnsýslulögunum og ég tel að það sé hlutverk umhverfisráðherra sem og allra annarra ráðherra að vinna innan marka laga, fara að góðum stjórnsýsluháttum og segja einfaldlega sína skoðun upphátt, vera dæmdir af verkum sínum. Ég mundi fagna því mjög ef sú sem hér stendur væri umhverfisráðherra í dag. Ég mundi væntanlega standa mig ágætlega í því starfi að mínu mati, fara vel að stjórnsýslulögum og taka upplýstar ákvarðanir á grundvelli þeirra ganga sem fyrir liggja.

Hins vegar er algerlega ljóst að ákvæðið í lögunum varðandi sameiginlegt umhverfismat er loðið og það er mín skoðun á grundvelli þeirra gagna sem ég hef aflað mér í þessu máli að það sé algerlega fráleitt að þessar framkvæmdir fari í sameiginlegt umhverfismat. Ég hef rétt á þeirri skoðun.