138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:10]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka jákvæð viðbrögð en mig langar líka að taka upp annan þráð frá ræðu þingmannsins sem var umræðan um friðlýst svæði sem hann nefndi að væru 20% af yfirborði landsins, sem er rétt, og um leið hans eigin varnaðarorð í því að miða við höfðatölu og einhverja absalút kvarða í samanburði milli landa. Friðlýst svæði á Íslandi eru stór, fyrst og fremst vegna Vatnajökulsþjóðgarðs sem er óvenjuleg staðreynd, þ.e. við erum með stóran jökul á landinu sem hefur sem betur fer allur verið friðlýstur og sá þjóðgarður stækkar.

Í því samhengi vil ég líka nefna þá auðlind sem er náttúra Íslands sem er sú auðlind sem í raun og veru nærir vaxandi ferðaþjónustu. Það er starfsgrein og atvinnugrein sem á möguleika á því að vaxa í sátt við náttúruna. Það er að vísu heilmikil áskorun að láta það gerast og gæta þess að ekki sé of mikill átroðningur á einstök svæði. En ég vænti þess að við séum jafnframt sammála um það því alla jafna er ég þeirrar skoðunar að við séum sammála um meira heldur en við erum ósammála um og þar með það hversu gríðarlega mikil sóknarfæri eru í því að deila landinu okkar með íbúum heimsins og náttúrlega fyrst og fremst með komandi kynslóðum því þar er línudansinn ekki síst, hæstv. forseti, milli þeirra sjónarmiða sem líta á núið sem aðalviðfangsefni og þeirra sjónarmiða sem krefjast þess að komandi kynslóðir eigi alltaf sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar.