138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ferðaþjónusta er og verður ákaflega mikilvæg atvinnugrein hér á landi, þökk sé ósnortinni náttúru og þökk sé þeim gríðarlega vinsælu ferðamannastöðum sem m.a. hafa skapast vegna nýtingar náttúruauðlinda. Þá vil ég bara ítreka það sem ég sagði áðan að alvinsælustu ferðamannastaðir á Íslandi, það eru engir staðir sem komast nálægt þeim, eru þeir sem hafa orðið til vegna virkjanaframkvæmda. Það er bara svoleiðis. Ég held að slíkt geti haldið áfram. Ég talaði áðan um Bláa lónið og Svartsengi þar sem er talið að um 500 þúsund ferðamenn komi á ári. Ég talaði um Hellisheiðarvirkjanir þar sem koma á annað hundrað þúsund manns á þessu ári og við getum talað um það hvernig Kárahnjúkavirkjun hefur aukið ferðamannaþjónustu og alla vinnu í kringum ferðamannaþjónustu á Austfjörðum, alger lykill að hálendinu þar inn af. Þarna kemur fólk í miklu miklu stærri mæli en nokkru sinni áður.

Ég vil enn og aftur minna á framlag orku- og stóriðjufyrirtækjanna til umhverfismála Ég veit ekki hvað rann úr ríkissjóði til umhverfismála á fimm ára tímabili frá árinu 2001–2006. En frá orku- og stóriðjufyrirtækjunum liggur það fyrir að 1,5 milljarðar fóru í bein verkefni á þeirra vegum í umhverfistengd verkefni, á annan milljarð frá þeim í bein verkefni og um 500 millj. til ýmissa samtaka og félaga sem hafa stundað náttúruvernd og umhverfisvernd að einhverju marki. Þetta eru engir smáaurar og ég er alveg viss um að við værum mun skemmra á veg komin ef ekki hefði notið þessa mikla stuðnings frá orku- og stóriðjufyrirtækjum í landinu.