138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst lýsa vonbrigðum mínum með það að ég er auðsjáanlega hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur ekki ógleymanleg. [Hlátur í þingsal.] Ég tók þátt í þessari umræðu í vor. (VigH: Ég man eftir þér.) [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Ég vil halda áfram í þessari umræðu um persónukjörið og ég lýsi þeirri skoðun minni að ég tel mjög nauðsynlegt að þetta frumvarp komi fyrir þingið. (Gripið fram í: Nei, nei.) Mér skilst að búið sé að afgreiða það út úr báðum þingflokkum. Ég legg áherslu á að þetta frumvarp er fyrir kjósendur en ekki flokka og frambjóðendur. Ég veit að sumum hér inni finnst þetta mjög róttæk hugmynd (Gripið fram í.) og vísa ég þá til þess að hv. þm. Guðlaugi Þór finnst ég mjög róttæk þegar ég segi (Forseti hringir.) að heilbrigðiskerfið sé fyrir sjúklinga en ekki starfsmenn heilbrigðisþjónustu.

(Forseti (ÁRJ): Guðlaugur Þór Þórðarson, hv. þingmaður, nefna þingmenn fullu nafni í ræðustól.)

Ég bið forseta afsökunar, og hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson.

Ég held að það sé ekkert of seint að afgreiða þetta, jafnvel þótt það yrði afgreitt bara rétt fyrir jól. Það er allt í lagi þó að prófkjör hafi farið fram einhvers staðar eða flokkur haldið kjördæmaþing því að einhvern veginn þurfa flokkarnir að velja það fólk sem kjósendur eiga að fá að raða í kosningunum í vor. Það er mín skoðun og ég mun leggja allt það á mig sem ég get til að frumvarp um persónukjör verði afgreitt á þessu þingi.