138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[14:01]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Þótt það sé freistandi að stökkva inn í umræður um persónukjör langar mig til að þakka hæstv. félagsmálaráðherra, þótt fjarverandi sé, fyrir að taka áðan undir hugmyndir um talsmann skuldara. Jafnframt ítreka ég þá ósk mína að þær rati með sanni inn í frumvarpið sjálft.

Með vísan í mál mitt áðan vil ég segja að bankarnir eru viðskiptafyrirtæki sem gerir það að verkum að ekki er hægt að tryggja að þeir vísi neytendum og notendum sínum á ýtrustu lögformlegar leiðir. Gömlu viðskiptabankarnir þrír hafa allir ráðið sér sérstakan umboðsmann neytenda innan húss og það er mjög gott mál en það dugir einfaldlega ekki til. Því miður er vantraustið á bankakerfið enn mjög titrandi staðreynd og skuldarar verða að geta haft skýr úrræði fyrir framan sig. Við hlið þeirra þarf að standa vel skilgreindur aðili sem er hafinn yfir sjálft fjármálakerfið. Í þessu samhengi skiptir í rauninni ekki mestu máli hvort þessi aðili fær lögheimili hjá Fjármálaeftirlitinu, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna eða Neytendastofu, það skiptir aðeins máli að hann sé raunverulegur og vel skilgreindur.