138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

svör við spurningum Evrópusambandsins.

[10:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hlýhugur hv. þingmanns í minn garð er gagnkvæmur. Hann er stuðningsmaður Kaupfélagsins í Skagafirði og það eru tvö kaupfélög eftir í heiminum, Kaupfélagið í Skagafirði og Evrópusambandið og ég styð bæði. [Hlátur í þingsal.]

Hins vegar er það svo, frú forseti, að það sem hv. þingmaður gerir hér að umræðuefni á sér fullkomlega eðlilegar skýringar. Þegar við höfðum lokið við að samþykkja þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu fyrr í sumar brast á fárviðri, Icesave-málið mikla. Þá komu til mín þingmenn með þær skoðanir að það væri betra sökum þess nána samráðs sem ég þyrfti og væri uppálagt að hafa við stjórnarandstöðuna að hafa m.a. um það mál að við mundum kæla það. Ég fór og ræddi það við fólk sem ég taldi og tel enn vera forustumenn í öllum stjórnmálaflokkunum og það varð að ráði. Hins vegar uppálagði þingið mér að hafa þar nánast samráð við ýmsa sérfræðinga, háskólasamfélagið o.s.frv. í gegnum þessa samningahópa sem af þessum sökum tafðist að skipa en eru nú að komast á lokasprett. Og til að standa undir þeim vilja Alþingis var farið með þessa kafla í gegnum fagráðuneytin til ýmissa hagsmunasamtaka, til háskólasamfélagsins, til þeirra sérfræðinga í stjórnsýslunni og þeirra stofnana sem munu eiga fulltrúa í þessum nefndum. Og til að hafa allt á tæru voru allir meginkaflarnir líka sendir hinni fimm manna Evrópunefnd utanríkismálanefndar sem las þá yfir og eftir atvikum gerði við þær jákvæðar athugasemdir, a.m.k. þekki ég dæmi um þar sem gerðar voru mikilvægar athugasemdir. Með þessum hætti tel ég að ég hafi náð því að hafa þetta samráð og draga úr þekkingarsjóðum þær staðreyndir sem þurfti því að (Forseti hringir.) þær staðreyndir sem felast í svörunum eru fyrst og fremst lýsingar á lagaverki, tölfræði o.s.frv. Þetta veit hv. þingmaður því að hann er eins og ég, hann er að snúast til fylgis við hitt kaupfélagið.