138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hlý orð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í garð framsóknarmanna. Framsókn mun standa með þjóðinni og framtíðarkynslóðum þessa lands svo hann þurfi ekki að taka þetta mál upp aftur með þessum hætti.

Mig langar að rifja upp með formanni fjárlaganefndar þau orð sem hann viðhafði í þinginu við atkvæðaskýringu sína frá 28. ágúst sl. þegar Icesave-samningurinn var samþykktur sem lög frá Alþingi en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í meðförum þingsins hefur sú ríkisábyrgð sem verið hefur til umfjöllunar lotið miklum og öflugum fyrirvörum sem við verðum síðan að fylgja eftir. Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því. Málið er þungt en krafðist lausnar og niðurstöðu og ég treysti á að sú niðurstaða fáist.“

Þessi orð formanns fjárlaganefndar frá atkvæðagreiðslunni vöktu mikla von í brjósti hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur á sínum tíma. Þess vegna spyr ég þingmanninn: Hvað breyttist síðan í atkvæðagreiðslunni? (Gripið fram í.)