138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

79. mál
[14:54]
Horfa

Flm. (Guðrún Erlingsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Meðflutningsmenn að tillögunni eru flestallir þingmenn Suðurkjördæmis.

Tillagan hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa vinnuhóp sem kanni möguleika á aukinni þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja með tilkomu Landeyjahafnar, í því skyni að nýta betur þekkingu starfsmanna, húsnæði og tækjakost stofnunarinnar með samstarfi við önnur sjúkrahús.“

Með tilkomu Landeyjahafnar, sem áætlað er að taka í notkun í júlí 2010, og þeirra samgöngubóta sem henni fylgja er mögulegt að efla og stækka þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

Með tillögu þessari er því lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að skipa vinnuhóp sem kanni sóknarmöguleika stofnunarinnar til þess að nýta betur þekkingu starfsmanna, húsnæði og tækjakost með samstarf við önnur sjúkrahús á landinu í huga.

Með slíkri samvinnu væri unnt að tryggja betur öryggi heimamanna og þá grunnþjónustu sem nauðsynleg er vegna landfræðilegrar sérstöðu Vestmannaeyja. Auk þess gæfust möguleikar á aukinni þjónustu við íbúa nágrannasveitarfélaganna og aðra landsmenn í samstarfi við önnur sjúkrahús.

Síðustu ár hefur orðið ákveðin þróun í átt að sérhæfingu í heilbrigðisþjónustunni þar sem einstök sjúkrahús hafa sérhæft sig á ákveðnum sviðum og er kjörið að skoða Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja í því samhengi.

Flutningsmenn telja könnun á sóknarmöguleikum Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja mjög brýna, sérstaklega á tímum niðurskurðar og hagræðingar, þegar nauðsynlegt er að leita allra leiða til þess að ná fram hagkvæmni og sparnaði, sem og að nýta betur húsnæði, tæki og þá víðtæku þekkingu sem starfsfólk býr yfir. Því telja flutningsmenn nauðsynlegt að vinna við þessa könnun hefjist nú þegar svo að unnt verði að nýta niðurstöðuna til aukinnar þjónustu og hagræðingar sem allra fyrst.

Landfræðileg sérstaða Vestmannaeyja og veðurfarslegar aðstæður gera það að verkum að nauðsynleg grunnþjónusta verður að vera á svæðinu. Á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja fer fram mikil og fjölbreytt starfsemi. Tækjakostur, húsnæði og þekking starfsfólks bjóða upp á meiri nýtingu en nú er. Í þeim hremmingum sem þjóðfélagið gengur í gegnum núna er nauðsynlegt að leita allra leiða til þess að hagræða sem mest og ekki væri verra að bæta þjónustuna á sama tíma.

Með tilkomu Bakkafjöru um mitt ár 2010 opnast möguleiki á að auka og tryggja þjónustu bæði við heimamenn og íbúa nágrannasveitarfélaganna kjósi þeir að nýta sér hana. Eins og fram kemur í greinargerðinni sem fylgir tillögunni og ég las upp áðan hefur ákveðin þróun átt sér stað í sérhæfingu í heilbrigðisþjónustunni. Ég hef rætt við ýmsa starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og eru þau öll sammála um að stofnunin geti tekið að sér fleiri verkefni en nú er sinnt. Á heimasíðu heilbrigðisstofnunarinnar eru greinargóðar upplýsingar um það sem stofnunin býður upp á. Þar starfa eftirfarandi læknar: Lyflæknir, skurðlæknir og svæfingalæknir á sólarhringsvöktum sem einnig er hluti af neyðarteymi sjúkrahússins. Þessir starfsmenn ásamt skurðhjúkrunarfræðingi eru kallaðir út þegar um bráðatilvik er að ræða á heilsugæslunni, sjúkradeild eða skurðstofu.

Fjórir heilsugæslulæknar starfa á stofnuninni og sinnir einn læknir vakt utan dagvinnutíma. Sjúkradeildin er blönduð með 35 rúmum. 18 þeirra tilheyra öldrunarsviði og 4 af þeim eru hvíldarrúm. Á hand-, lyf- og bráðasviði eru 17 rúm. Á sjúkradeild fer fram almenn lyflækninga-, handlækninga- og endurhæfingarþjónusta. Bráðaþjónusta er allan sólarhringinn auk þess sem sængurkonum og nýburum er sinnt. Þá fer fram kennsla sjúkraliðanema í verknámi þar sem lögð er áhersla á verkfærni og þjálfun á landsbyggðarsjúkrahúsi sem þarf að geta tekið á móti fjölbreyttum sjúklingahópi.

Sjúkradeildin starfrækir dagdeild þar sem fram fer lyfjagjöf vegna krabbameinsmeðferðar, bólgusjúkdóma, sýklalyfja, járngjafar, blóðgjafar o.fl. Deildin er vel tækjum búin og aðstaða sjúklinga góð, þökk sé velunnurum sjúkrahússins sem gefið hafa tæki og húsgögn til deildarinnar.

Á skurðdeildinni eru gerðar um það bil 400 aðgerðir á ári. Þær eru framkvæmdar af skurðlækni sjúkrahússins og gestasérfræðingum svo sem háls-, nef- og eyrnalæknum og bæklunarsérfræðingum. Sem dæmi um aðgerðir má nefna gallblöðruaðgerðir, kviðslitaaðgerðir og æðahnútaaðgerðir, þvagfæraaðgerðir, blöðruspeglanir, ófrjósemisaðgerðir, brotaaðgerðir og neglingar, slysaaðgerðir, háls-, nef- og eyrnaaðgerðir, kirtlatökur, kviðarholsspeglanir, keisaraskurði og bráðaaðgerðir vegna fæðinga auk verkjameðferðar vegna slysa og langvarandi veikinda. Á stofnuninni fara fram svefnrannsóknir, hjartaþols- og áreynslupróf, mæðra- og barnavernd, starfandi er hjartateymi sem gerir áhættumat og sinnir forvörnum. Göngudeild fyrir sykursjúka er einnig starfrækt.

Starfandi sjúkraþjálfarar eru nú fimm en auk þess búa í sveitarfélaginu a.m.k. tveir iðjuþjálfar og þrír aðrir eru í námi. Sjúkraþjálfarar sinna þjónustu og ráðgjöf til heilsueflingar bæði fyrir inniliggjandi sjúklinga og göngudeildarþjónustu. Sérhæfð endurhæfing er fyrir hjarta- og lungnasjúklinga, leikfimi fyrir gigtarsjúklinga og vatnsleikfimi fyrir ýmsa hópa í Sundlaug Vestmannaeyja. Í sjúkraþjálfun fer fram öflug þjálfun og almenn endurhæfing vegna ýmissa veikinda.

Geisladeild er starfrækt á heilbrigðisstofnuninni, þar vinna tveir geislafræðingar sem sjá um almennar beinamyndatökur, lungnamyndir og aðrar röntgenrannsóknir. Sneiðmyndatæki var gefið til sjúkrahússins nýverið og er það vel nýtt. Allur úrlestur sneiðmynda fer fram í Reykjavík. Ágætlega búin rannsóknardeild sér um allar almennar blóð- og meinefnafræðirannsóknir, sýklarannsóknir o.fl. Þau sýni sem ekki er hægt að mæla í Eyjum eru send á rannsóknardeildir Landspítalans við Hringbraut.

Eins og heyra má af upptalningu minni er Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja ágætlega tækjum búin og starfsemi þar mikil. Stofnunin þarf að geta sinnt margvíslegum verkefnum því að alls er óvíst að flugfært sé frá Eyjum þegar slys eða sjúkdóma ber að höndum. Tilkoma lyfjablöndunartækis, sneiðmyndatækis og komur gestasérfræðinga hefur sparað heilbrigðiskerfinu í formi ferðakostnaðar, auk þess sem þetta er mikill sparnaður fyrir atvinnulífið og íbúa byggðarlagsins. Með þann tækjakost sem að framan greinir, húsnæði og þekkingu, er hægt að þjónusta mun fleiri en íbúa Vestmannaeyjabæjar. Þá opnast líka möguleikar á að sérhæfa sjúkrahúsið og hafa verið nefnd sem dæmi gallblöðruaðgerðir og endurhæfing ýmiss konar. Það er verðugt verk að kanna til hlítar, ekki hvort heldur hvernig hægt er að nýta betur þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja í ljósi kröfu um hagræðingu og þeirra samgöngubóta sem verða við tilkomu hafnar í Landeyjum og tryggja þannig örugga og öfluga þjónustu við Vestmannaeyinga, hagræði í heilbrigðiskerfinu og að auka þjónustu við aðra landsmenn.

Ég vænti þess að þingmenn samþykki þessa þingsályktunartillögu og hvet heilbrigðisráðherra, þegar samþykki liggur fyrir, að bregðast skjótt við, skipa fljótt og vel í starfshópinn og gera kröfu um að niðurstaðan liggi fyrir eins fljótt og hægt er.