138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[18:30]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu sem er afar þarft og mikilvægt mál og þakka ég hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir að leggja það fram. Þetta er náttúrlega þarft mál í mörgu tilliti, ekki síst í ljósi þess hversu stór atvinnuvegur ferðaþjónustan er orðin.

Það er í raun og veru mjög merkilegt að við höfum ekki nú þegar unnið þessa áætlanagerð þar sem hún er forsenda markvissrar og faglegrar uppbyggingar í öllu tilliti. Eins og ég skil áætlanagerð er hún í raun og veru ákveðin stefnuyfirlýsing stjórnvalda. Þannig er t.d. aðalskipulag sveitarfélaga slík stefnuyfirlýsing um landnýtingu í viðkomandi sveitarfélagi. Í raun má segja að í t.d. aðalskipulagi þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu er þegar komið ýmislegt sem kannski má nýta í þessari vinnu. Mér finnst sem sagt afar sérstakt að við höfum ekki unnið þessa stefnumarkandi vinnu varðandi jafnmikilvæg mál og ferðaþjónustu og náttúru Íslands og ítreka hversu mikilvægt þetta mál er og hve gott er að það sé nú komið fram.

Mig langar til að taka annan flöt og tengja þessa umræðu uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs sem ég þekki svolítið frá minni heimabyggð. Þar er um að ræða stærsta þjóðgarð Evrópu og nú þegar er hafin talsverð vinna við uppbyggingu hans, t.d. við svokallaðar verndaráætlanir þar sem reynt er að finna hið hárfína jafnvægi á milli nýtingar og verndunar. T.d. er tekið tillit til hvar má veiða, hvar sauðfé má ganga, hvar umferð verður leyfð og hvar umferð verður alls ekki leyfð. Ég held að þar séu í raun og veru ákveðnir samnýtingarmöguleikar og þarna getum við lært af þeirri vinnu sem þegar hefur verið hafin.

Einnig hefur verið tekin mjög ákveðið sú stefna til að byrja með að öll uppbygging fer fram í jaðri þjóðgarðsins. Það verður ekki byrjað á að leggja stíga og hleypa fólki inn í þjóðgarðinn fyrir utan það sem fyrir er heldur er uppbyggingin í jaðri þjóðgarðsins meðan verið er að byggja upp innviðina og vinna ákveðna rannsóknarvinnu til þess að finna hversu mikið garðurinn mun þola. Ég legg til að við nýtum samlegðaráhrif þeirrar vinnu sem þar er hafin og þeirrar vinnu sem hér er verið að leggja til verði unnin, bæði í tekjuöflun, rannsóknum og útfærslu. Ég lýsi hér með yfir einlægum stuðningi mínum við þessa þingsályktun.