138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:34]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Þeir sem taka þær ákvarðanir eru ekki öfundsverðir, enda líf, heilsa, öryggi og framtíð fólks af holdi og blóði í húfi. Ég hef verulegar áhyggjur af því að á niðurskurðarborði því sem blasir við okkur muni hvers lags forvarnir mæta afgangi. Það er auðvelt og e.t.v. freistandi að skera niður í forvarnastarfi því að áhrifin koma ekki strax fram, en ef slík nálgun verður ofan á mun það koma rækilega í bakið á okkur síðar meir. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða vímuefnavarnir, flúorskolun, hreyfingu barna og ungmenna, skimun fyrir brjóstakrabbameini, tóbaksvarnir eða annars konar forvarnaverkefni. Ef vel á að takast til þarf samstarf við aðra þjónustuaðila og aðra í samfélaginu.

Sem dæmi má nefna að nú þegar matvæli hækka í verði er stór hætta á minnkandi gæðum og hollustu þeirra matvæla sem þjóðin neytir. Við vitum einnig að því ástandi sem nú ríkir fylgir álag og við því verðum við að bregðast strax. Rannsóknir sýna einnig að neysla áfengis og annarra vímuefna eykst hjá ýmsum hópum þegar kreppir að. Því er mikilvægt að muna að það er alltaf ódýrara að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Það bið ég þá sem koma að forgangsröðun í heilbrigðismálum að hafa í huga.