138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:05]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara lýsa því yfir að ég er hjartanlega sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni hvað varðar síðustu orð hans. Ég held líka að það sé mjög spennandi verkefni fram undan hjá nefndinni að fara í gegnum málaflokka ráðuneytisins, þ.e. dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, en bendi þó á að ef menn ætla að bæta í, hvort sem það eru fangelsismálin, löggæslan, dómstólar, Hæstiréttur o.s.frv., verða menn auðvitað að koma með einhverjar tillögur á móti og það kann vel að vera að slíkar matarholur leynist í einhverjum öðrum ráðuneytum, því það er rétt sem hv. þingmaður benti á að dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur staðið sig afar vel í niðurskurðartillögum sínum. Það sem ég hef kynnt mér og skoðað í fjárlagafrumvarpinu hjá öðrum ráðuneytum þá sýnist mér að þau mættu taka sér þetta ráðuneyti til fyrirmyndar. Það kann því vel að vera að við getum fundið matarholu þar og sett í þennan málaflokk.