138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:09]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir svarið og spurninguna sem ég skal reyna að svara en hún snerist um það hvort ég teldi fyrirhugað dómstólaráð vera einhverja sérstaka framför eða hagræðingu í réttarkerfinu. Því er til að svara að ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvort þetta dómstólaráð sé nauðsynlegt eða ekki, hvort þetta sé einhver óþörf silkihúfustofnun, en á móti slíkum stofnunum hef ég bæði margt og mikið. Það er í þeim anda sem ég tel að það sé mikil framför í því að sameina marga dómstóla og hafa einn héraðsdómstól með margar starfsstöðvar sem auðveldar að jafna vinnuálagi og að fjöldi þeirra sem útdeila refsingum og dómum á hverjum stað sé í samræmi við eftirspurnina eins og góð viðskiptaregla mælir fyrir um.