138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:58]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að blanda mér í umræðuna um þetta mál, sem margir þingmenn hafa rætt síðustu mínútur og klukkustundir, og byrja á að fagna þeirri umræðu sem farið hefur fram í þingsalnum. Hún hefur verið mjög málefnaleg, hún hefur verið efnismikil og menn hafa undirbúið sig undir umræðuna og mjög mörg sjónarmið hafa komið fram sem ég sem formaður allsherjarnefndar og við í nefndinni munum að sjálfsögðu taka til efnislegrar meðhöndlunar og skoðunar. Ég heyri að ýmsir þingmenn hafa áhyggjur af því að um sé að ræða frumvarp sem — menn hafa áhyggjur af því að það vanti faglegt markmið með frumvarpinu og eins að þar sé vanhugsaðar sparnaðarhugmyndir að finna. Ég ætla ekki að bregðast efnislega við þeirri gagnrýni heldur segja að við munum að sjálfsögðu fara yfir það í nefndinni. Eitt af því sem við munum gera þar er að fá útreikninga á þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir varðandi sparnað o.s.frv. En ég vil hins vegar í þessari umræðu leggja áherslu á að ekki er lagt upp með það að spara til skamms tíma varðandi þessa skipan mála, það er ekki markmið í sjálfu sér.

Hér hefur verið talað um að verið sé að færa fullmikið vald til dómstólaráðs. Það má alveg færa rök fyrir því að svo sé og vel getur komið til greina að mínu áliti að löggjafarvaldið taki það einfaldlega að sér að ákveða þetta fyrirkomulag um staðsetningu í þessu tilfelli. Það þarf ekki endilega að vera dómstólaráð. Það má alveg vera löggjafarvaldið. Hv. þm. Atli Gíslason hafði áhyggjur af því að ákveðið valdaframsal ætti sér stað hér og mér finnst sjálfsagt að skoða hver það er sem ákveður staðsetninguna. En markmiðið er í sjálfu sér ekki sparnaður heldur það sem hæstv. ráðherra kom inn á og fleiri þingmenn hafa nefnt, þ.e. álag á dómstólana sem er mjög misjafnt. Það er mjög misjafnt eftir landshlutum. Ekki er langt síðan formaður Dómarafélags Íslands kom á fund allsherjarnefndar þar sem verið var að ræða skipan þessara mála í landinu og þar komu m.a. fram af hans hálfu miklar áhyggjur af þessu álagi, hversu misskipt það væri og auðvitað vitum við að álagið er langsamlega mest á suðvesturhorninu og á klárlega eftir að aukast á næstunni með öllum þeim málum sem bæði eru komin inn og eiga eftir að koma inn í kjölfarið á bankahruninu þannig að fara þarf mjög vel yfir þetta.

Burt séð frá öllum byggðasjónarmiðum, sem ég hef fullan og mikinn skilning á, þá verðum við að vera fólk til að horfa á þetta gagnrýnum augum. Ef það er þannig einhvers staðar úti um landið, og nú er ég ekkert endilega að segja að það sé þannig, að þar sitji aðilar sem hafa lítið sem ekkert að gera þá er eðlilegt að skoðað sé hvort hægt sé að taka upp fyrirkomulag sem leiði til þess að starfskraftar þessara manna nýtist betur en ella, hugsanlega þannig að þeir geti þjónað stærri landsvæðum o.s.frv. Það er það sem verið er að leggja upp í þessu frumvarpi, það er þetta jafna álag þessara aðila.

Minn ágæti félagi, varaformaður allsherjarnefndar, Atli Gíslason, kom inn á það í ræðu sinni að honum fyndist stundum að það skorti skilning á hagsmunum landsbyggðarinnar í þessum þingsal. Ég get allt eins sagt að mér hefur stundum þótt vanta upp á skilning á hagsmunum höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Burt séð frá því hvort við erum þingmenn Reykjavíkur norður eða Norðvesturkjördæmis eða einhvers annars kjördæmis, þá er landsbyggðin og verður aldrei neitt án höfuðborgarinnar og höfuðborgin verður aldrei neitt án landsbyggðarinnar. Þarna fara hagsmunirnir saman. Ég held hins vegar að lausnin á þessu sé einfaldlega sú að gera landið að einu kjördæmi. Það hlýtur að vera takmarkið vegna þess að þá eyðum við þeim ríg sem birtist oft í umræðum eins og um þetta mál þar sem menn eru sí og æ að togast á um það hvort þetta sé byggðamál, það sé verið að taka störf frá landsbyggðinni, færa þau til höfuðborgarinnar o.s.frv. Ég hef margoft tekið þátt í þessari umræðu og við hjökkum öll, og ég ætla ekki að undanskilja sjálfa mig í því, í sama farinu í þessari byggða- og höfuðborgarumræðu.

Við þær aðstæður sem við nú búum við er enn brýnna en áður að eyða þessum mun. Þess vegna held ég og hef lengi verið þeirrar skoðunar að það að landið verði eitt kjördæmi muni leysa þetta í eitt skipti fyrir öll. Ég hef ekkert minni skilning á samgöngu- og vegamálum í Norðvesturkjördæmi en hv. 1. þm. Norðvest. hefur á samgöngu- og vegamálum í Reykjavík. Ég þarf að nota vegi og samgöngur í því kjördæmi jafnmikið og hv. þingmaður þarf að gera í Reykjavík þannig að hagsmunirnir fara saman. Mér finnst umræðan um þetta tiltekna mál að þessu sinni hafa farið ofan í þessi hjólför um höfuðborg og landsbyggð, um að verið sé að fara illa með landsbyggðina og taka störf þaðan sem muni þá flytjast til Reykjavíkur en ég held að við eigum alls ekki að nálgast málið þannig. Það er fyrst og fremst verið að reyna að leggja upp með það að jafna álagið en eins og ég sagði í upphafi þá mun allsherjarnefnd fara yfir þetta mál frá A til Ö, allar þær efnislegu athugasemdir og ábendingar sem hafa komið fram frá þingmönnum. Margar hverjar hafa verið mjög samhljóða og við munum fara yfir það og ég fullvissa þingheim um að allsherjarnefnd mun reyna að vinna starf sitt eins vel og henni er mögulegt.

Að lokum vil ég þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra fyrir framsögu í þessu máli.