138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi frumvörp eru komin á dagskrá þingsins. Ég hélt að þetta yrði ekki tekið hér á dagskrá þar sem skammt er til sveitarstjórnarkosninga. Ég verð að biðja þingmenn sem sitja hér í salnum afsökunar á því ef ég tvítek eitthvað sem áður hefur verið sagt í þessari umræðu, en ekki er hægt að segja að frumvörpin séu á dagskrá á fjölskylduvænum tíma. Ég er nýkomin í þinghúsið og missti því af framsöguræðu hæstv. ráðherra.

Ég náði þó aðeins í seinni hlutann af ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Það kom mér svolítið á óvart þegar hún upplýsti þingheim um að samstaða hefði verið í nefndinni sem fjallaði um þessi mál, að stíga ekki stór skref í þetta sinn. Það var fulltrúi Framsóknarflokksins, sú sem hér stendur, ásamt einum fulltrúa Samfylkingarinnar, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, auk aðstoðar frá fulltrúum Borgarahreyfingarinnar, sem var mjög jákvæð á að ganga ætti alla leið í þessu máli og fara hina svokölluðu írsku leið, þ.e. að velja lista og fólk og fólk á milli lista — vinnuheitið í nefndinni var að „velja af hlaðborði“ en ég hef valið að kalla það að „velja lárétt á milli lista“ því að það er hin eiginlega og sanna persónukjörsleið. Eins og ég sé þetta er verið að færa prófkjör flokkanna inn á kjördag, því að það er á kjördag sem aðilar mæta og kjósa og raða þá á þá lista sem flokkarnir hafa fyrir fram ákveðið, mismunandi mörgum eftir því hve umfangið er stórt á kjördæminu eða sveitarfélaginu því að neðstu sætin, helmingahlutinn af þeim sætum sem eru í boði, eru fyrir fram röðuð. Þetta er ágætisfyrirkomulag og ég sé fyrir mér að hefði verið farið alla leið í þessu máli, að velja líka lárétt á lista, hefði sú leið líka verið farin.

Ég sat fyrir hönd Framsóknarflokksins í undirbúningsnefnd við mótun og samningu þessara frumvarpa sem voru lögð fram á sumarþinginu. Þau fóru einungis í 1. umr. á sumarþinginu og ekki reyndist vera vilji eða áhugi á að reyna að koma þeim í gegnum þingið þá og gera þau að lögum svo fólk yrði ekki í þessari óvissu nú þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa örlítið upp úr frumvarpinu í kaflanum sem kallast, að mig minnir, Athugasemdir við lagafrumvarp þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Upptaka persónukjörs í kosningum hér á landi er meðal forgangsverkefna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ein þeirra lýðræðisumbóta sem hún telur nauðsynlegt að beita sér fyrir ásamt setningu laga um þjóðaratkvæðagreiðslur og heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.“

Hafi það verið forgangsverkefni í sumar, og er enn meira forgangsverkefni núna að því er virðist, að koma lögum um persónukjör í gegnum þingið í stað þess að huga að heimilum og fjölskyldum. Þar sem nú er að verða ár frá hruni finnst mér þetta einstaklega óeðlileg forgangsröðun. Það er vitað að þar sem atburðir hafa gerst í ríkjum eins og gerðust hér á Íslandi síðasta haust — ef eitthvað þarf að vera stöðugt og stabílt þá er það kosningalöggjöf í þeim ríkjum. Ef eitthvað myndar og skapar grundvöll fyrir upplausn og óöryggi þjóða þá er það að einhver vafi leiki á því eftir hvaða reglum kosningum skuli háttað að ekki sé talað um talningu á atkvæðum kjósenda eftir kjördag. Við getum litið til margra landa varðandi þetta.

Við vorum að fá þær fréttir jafnframt að það hafi verið notað sem tylliástæða — ein af ástæðunum fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn endurskoðaði ekki prógrammið okkar hafi m.a. verið sú að hér væri mikið stjórnmálaóöryggi og mikil upplausn. Ég vil því vara við því að frumvarpið fari hér með miklum hraða í gegn en þar sem þetta virðist vera forgangsverkefni ríkisstjórnar má vel vera að svo verði.

Ég vil líka benda á það að nú eru margir stjórnmálaflokkar búnir að ákveða prófkjör sín, en ég sé að ekki er neitt því til fyrirstöðu að þessi lög taki gildi þrátt fyrir það og listarnir séu þá búnir að raða þar í sín sæti, því að stjórnmálaflokkarnir þurfa hvort eð er að velja þá aðila sem fara inn á þennan vallista. En ég velti því fyrir mér hvort ekki sé skynsamlegra að framfylgja þessum lögum í fyrsta sinn í alþingiskosningum þar sem kjördæmin eru þó bara sex en sveitarfélög hér á landi yfir 130. Ég hafna þeirri skoðun og þeim hugmyndum að einhver sveitarfélög sem það vilja eigi að fá að prufukeyra þetta því að einungis eiga að vera ein lög um sama hlut í landinu.

Hv. þm. Birgir Ármannsson benti mjög á þetta í nefndinni og taldi þetta afar brýnt og er ég honum hjartanlega sammála með það að þegar valið er orðið svo víðtækt, og þetta er það viðkvæm löggjöf og ekkert má út af bera, þá verða að vera ein lög í landinu og sérstaklega í ljósi þess að mikil óeining og upplausn ríkir í þjóðfélaginu. Þetta gæti skapað mikla ólgu, þannig að ég hugsa að ég leggi áherslu á það í allsherjarnefnd að gildistökudegi frumvarpsins sem leiðir til breytinga á kosningu til sveitarstjórnar, nr. 5/1998, verði frestað fram yfir sveitarstjórnarkosningar, þannig að fyrst verði kosið eftir þessum lögum til sveitarstjórna eftir rúmlega fjögur ár og næstu alþingiskosningar þá notaðar sem prófsteinn á það hvort þetta virkar yfir höfuð hér á landi. Þá er líka einfaldari framkvæmd á þessu og þá er þetta gert á landsvísu og í kjördæmum en ekki í mörgum litlum einingum, því auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að þó úrslit hvað flokkana varðar liggi fyrir að morgni kosningadags gæti það dregist mjög mikið að sjá hverjir hljóta hvaða sæti.

Hræðslan má heldur ekki byrgja okkur sýn eins og kom svo glögglega í ljós þegar frumvarpið var til 1. umr. á sumarþingi. Þá stóðu stjórnarþingmenn upp og gagnrýndu það mjög og var ég í þeirri aðstöðu að vera rasandi bit á því að ég stjórnarandstæðingurinn væri þessu mjög hlynnt, enda það á stefnuskrá Framsóknarflokksins að breyta kosningalögum og auka þar persónuval. (Gripið fram í.) En ég ítreka það að (Gripið fram í.) – þetta er stjórnarfrumvarp, já. Ég sem stjórnarandstæðingur stóð uppi með það að vera hlynnt þessu en tveir ákveðnir stjórnarþingmenn voru þessu mótfallnir, fyrir utan það, eins og ég benti á hér áðan í ræðu, að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er þessu mjög hlynnt, enda hefur hún kynnt sér málið mjög vel og höfum við mjög svipaðar skoðanir í þessu. Þetta var ég búin að segja áðan. En hræðslan má ekki byrgja þingmönnum sýn, það þýðir ekki að gera hallarbyltingu og þora svo ekki að breyta neinu sem snýr að þinginu og sérstaklega ekki þegar það snýr að kosningalöggjöf, því raunverulega er það þá langtum stærri hluti sem velur einstaklingana inn á listana með þessum hætti heldur en nokkurt val innan flokks eða prófkjör. Venjulega er það nú svo sem betur fer að sá listi sem hefur farið í gegnum prófkjör fær langtum fleiri atkvæði í kosningum en þeir sem velja á listann.

Annað sem ég er mjög hrifin af í þessari leið, í þessu frumvarpi — rætt er um það að fólk sé lengi að kjósa og jafnvel að eldra fólk gefi sér ekki tíma til að velja persónur — er sú hugmynd að það sé í lagi og atkvæðaseðill verði gildur þrátt fyrir að fólk tölusetji ekki og merki við fólk, en þá gerist það að viðkomandi kjörseðill verður gildur, en þeir sem völdu stjórna því raunverulega hverjir taka sætin á listanum. Þetta minnkar líka líkur á því að atkvæði verði ógild.

Sú gagnrýni heyrðist við vinnslu frumvarpsins að ekki væri hægt að hafa handstýringu á því að jafna stöðu kynjanna í kosningunum því að þarna væri kjósandanum gefinn frjáls taumur. Það er það sem persónukjör gengur út á að hvert atkvæði gildi jafnt og hafi sama vægi og atkvæðið hjá manninum við hliðina. Það verður að vera í höndum flokkanna að raða beint inn á þessa vallista sem fara í kosningar og þá er það fullkomlega í höndum kjósenda hvernig þeir raða, þannig að til þess að halda þessu markmiði með persónukjör er ekki hægt að setja einhverjar girðingar í frumvarpið eða inn í lögin, að hlutföllum á milli kynjanna sé raskað.

Annað sem olli hræðslu sérstaklega hvað varðar breytingum á lögum um sveitarstjórnir, og náttúrlega líka til Alþingis, var það að ákveðin byggðarlög mundu verða eftir með þessu persónukjöri, að það væru bara stóru byggðakjarnarnir sem mundu ná sínum aðilum að. En þar sem þetta byggist á írsku leiðinni og að þetta er með þeim hætti að hvert einasta atkvæði nýtist sem best, því að það færist aftur á bak eins og hefur verið farið hér yfir, þá eru það einmitt minnihlutahópar eins og minni sveitarfélög og dreifðari byggðir sem raunverulega græða á því, því að þessi sveitarfélög hefðu svo lítið vægi í venjulegu prófkjöri. Ég lít því á það sem tækifæri en ekki sem galla að þetta sé með þessum hætti og útreikningar í frumvarpinu sýna að minnihlutahópar eiga greiðari leið til þess að ná árangri í þessu kosningakerfi.

Einnig var rætt um að þetta mundi hindra það að tvö eða þrjú sameiginleg framboð gætu boðið fram lista, þá gæti einn flokkurinn staðið upp úr með allt sitt fólk. Það er eitthvað sem þyrfti þá að skoða en þetta er bara eins og í venjulegu prófkjöri að það er alltaf vilji kjósenda sem kemur í ljós, það er það sem við viljum í lýðræðisþjóðfélagi.

Eins og ég sagði áðan er ég afar hlynnt báðum þessum frumvörpum og Framsóknarflokkurinn styður þau. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir þarf því ekki að efast um stuðning Framsóknarflokksins í þessu máli. Þó að hún telji að það verði torvelt að koma þessu í gegnum þingið þá stendur ekki á stjórnarandstöðuflokknum, Framsóknarflokknum, í þessu. Það eru þá kannski stjórnarflokkarnir sem frekar setja sig upp á móti þessu og einstaklingar innan þeirra, en við erum svo lánsöm í allsherjarnefnd að þar sitja fulltrúar allra flokka og áheyrnarfulltrúi frá Hreyfingunni. Þar sitja því aðilar frá öllum flokkum og ég get vottað það hér að þingmenn Hreyfingarinnar og hv. þm. Þráinn Bertelsson eru mjög hlynnt þessu persónukjöri. Ég sé það því fyrir mér að frumvarpið gæti fengið góða útkomu úr atkvæðagreiðslu, þ.e. ef stjórnarflokkarnir bera gæfu til þess að koma þessu sjálfir í gegnum þingið og bera hitann og þungann af því og vinna í sínu fólki sem er á móti þessu. Svo einfalt er það.

Þegar góð mál koma fram sem vert er að styðja þá styður Framsóknarflokkurinn þau að sjálfsögðu, svo að því sé haldið til haga. Þau orð féllu í umræðunni í dag að ákveðnir flokkar hér á þingi væru á móti öllu má segja. Ég ítreka það enn á ný og það er aldrei of oft endurtekið — ég tel að úr því verið er að breyta lögum um kosningar að ganga eigi alla leið frekar en vera að taka þetta í mörgum skrefum og leyfa þá fullkomið persónukjör með vali á milli lista. Þetta er vissulega fyrsta skrefið en að mínu mati gengur þetta ekki nógu langt. Þetta eru lýðræðisumbætur sem við verðum að standa að og vonast þá til þess að um leið og Framsóknarflokkurinn hafi til þess afl og komist í ríkisstjórn verði lagt fram nýtt frumvarp sem leyfir flakk kjósandans sjálfs á milli lista til að velja sér þá einstaklinga sem hann vill. Fullkomið persónukjör verður ekki fyrr en því marki er náð.