138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:28]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður tæpti á því að með persónukjöri gætu flokkarnir ekki stýrt því að jafnt hlutfall karla og kvenna kæmist á þing eða í sveitarstjórnir. Mig langar að fjalla aðeins nánar um jafnréttismál og persónukjör.

Ég lít svo á að konur eigi sjálfar að vera ábyrgar fyrir því að bjóða sig fram til þátttöku í stjórnmálum. Kjósendur sem eru í jöfnum mæli karlar og konur ættu líka að vera ábyrgir fyrir því að velja fulltrúa sinn á þingi eða í sveitarstjórnum og það er þeirra að velja einstaklinga af báðum kynjum. Við skulum átta okkur á því að nú er fyrsti áratugur 21. aldarinnar að líða undir lok. Ég er ekki að segja að fullkomnu jafnrétti sé náð en mér finnst kominn tími til þess að við vörpum ábyrgðinni yfir á kjósendur okkar.

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort hún sé ekki sammála mér um það að þjóðinni sé treystandi til að tryggja jafna stöðu kynjanna á þingi og í sveitarstjórnum.