138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:51]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var nákvæmlega spurningin sem ég lauk máli mínu á: Hver er hinn raunverulegi skaði af því að koma þessu máli í gegnum þingið núna? Það eru, eins og hv. þingmaður segir, átta mánuðir og ég tel að það sé nægur tími til að setja vandaða löggjöf um þetta efni og framfylgja henni svo í kosningum.

Það er að mínu mati engin brýn þjóðfélagsleg þörf á því önnur en sú, og ég svara þeirri spurningu játandi, að við eigum að auka möguleika almennings á því að hafa áhrif á það hverjir það eru sem veljast til þessara trúnaðarstarfa. Það held ég að sé grundvallarspurningin. Sé maður á annað borð á þeirri skoðun á maður að einhenda sér í það verk. Hafi maður átta mánuði til þess er það engin spurning.