138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá finnst mér hv. þm. Róbert Marshall ganga út frá því að sú leið sem hér liggur fyrir varðandi persónukjör sé eina hugsanlega leiðin til þess að auka vægi persónukjörs eða auka möguleika kjósenda á því að velja einstaklinga í meira mæli til þeirra kjörnu trúnaðarstarfa sem um er að ræða. Staðreyndin er sú að í löndunum í kringum okkur eru farnar fjölmargar mismunandi leiðir. Sumar þeirra kunna að hafa reynst vel, aðrar kunna að hafa reynst illa. Sennilega eru flestar einhvers staðar þar mitt á milli, þær hafa kosti og galla. Ég held að mannkynið sé ekki svo fullkomið að það hafi nokkurn tíma fundið fullkomið kosningakerfi og tel því ekkert athugavert við það og sjálfsagt og eðlilegt að við, bæði hér inni á þingi og annars staðar úti í þjóðfélaginu, tökum umræðu um það hvernig við viljum haga þessum málum.

Hins vegar liggur það ljóst fyrir að þegar við erum að tala um ákveðna grundvallarþætti í samfélaginu, grundvallarlöggjöf, þurfum við að fara í gegnum töluvert mikla umræðu, miklar vangaveltur og mikil skoðanaskipti áður en við komumst að niðurstöðu. Þó að tæknin sé mikil, þó að ég sé sammála því að það er auðvelt að kynna nýjar hugmyndir og nýtt fyrirkomulag á skömmum tíma, er það samt ekki heppilegt. Ég held að allir hljóti að geta fallist á það að ekki er heppilegt að breyta kosningalögum mjög skömmu fyrir kosningar, sem þýðir það í mínum huga að niðurstaða í þessu máli, ef beita á þessu í vor í sveitarstjórnarkosningum, þarf að liggja fyrir nokkrum mánuðum áður en til kosninga kemur. Menn kunna að hafa aðrar skoðanir en ég held að þetta sé skynsamleg og eðlileg nálgun.

Ég held þess vegna að við ættum frekar að setja þetta mál í umræðu, hafa víðtæka umræðu um það í samfélaginu, eins og við ræddum reyndar hér á þinginu í sumar. (Forseti hringir.) Síðan hefur engin víðtæk umræða farið fram í samfélaginu. Við eigum að fara þá leiðina (Forseti hringir.) og taka síðan ákvörðun frekar en að taka eina ákvörðun í dag í trausti þess að við getum tekið einhverja allt aðra ákvörðun á morgun.