138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

persónukjör -- atvinnumál -- fjárheimildir ríkisstofnana.

[13:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil, líkt og síðasti ræðumaður, hv. þm. Illugi Gunnarsson, ræða um atvinnumál. Ég held að tíma Alþingis væri vel varið í að ræða um hvernig við ætlum að fjölga störfum í landinu þegar 13–14 þúsund Íslendingar eru án atvinnu, hvernig við ætlum að auka tekjur og umsvif í íslensku samfélagi. Það er eðlilegt að við spyrjum forustumenn þessarar ríkisstjórnar hvaða áætlanir ríkisstjórnin hafi í þeim efnum að fjölga störfum í samfélaginu.

Við þingmenn Norðausturkjördæmis vorum nýlega á fundi austur á fjörðum þar sem fram kom að skattstefna ríkisstjórnarinnar mun að öllu óbreyttu koma í veg fyrir að störfum í Fjarðabyggð muni fjölga um 100 á næstu mánuðum, sem mundi skila milljörðum í veltu inn í íslenskt samfélag. Vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar er verið að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á ýmsum sviðum hér í landinu.

Ég fordæmi það héðan úr ræðustól Alþingis hvernig sumir þingmenn hafa talað niður til hinna ýmsu atvinnugreina líkt og iðnaðarins, eins og það sé eitthvað skammarlegt við það að tala fyrir uppbyggingu í iðnaði, eins og þar séu eitthvað verri atvinnugreinar en aðrar í landinu. Við þurfum einfaldlega að horfa til allra þeirra tækifæra sem blasa við okkur. Ríkisstjórnin virðist einungis sjá að það sé bara hægt að hækka skatta og skera stórkostlega niður í rekstri hins opinbera.

Það eru tækifæri til staðar. Það er hægt að veita atvinnulífinu það svigrúm að fjölga störfum í landinu. Þannig getum við komist hjá því að hækka skatta í allt of miklum mæli og þannig getum við komist hjá því að skera of mikið niður í ríkisútgjöldum. Við hér í stjórnarandstöðunni á þingi þurfum einfaldlega að opna augu t.d. hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessu. Þess vegna (Forseti hringir.) sting ég upp á því, frú forseti, að við tökum nú sérdag í umræðu um það hvernig við byggjum upp fleiri atvinnutækifæri (Forseti hringir.) hér á landi vegna þess að þess er svo sannarlega þörf á Íslandi í dag.