138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

98. mál
[18:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Þetta mál er að mörgu leyti svipað fyrri fyrirspurninni, þetta varðar jafnframt staðfestingu aðalskipulags, en nú erum við að tala um Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson beindi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hér á sumarþingi um þetta mál og þá var ýmsum liðum svarað sem maður veltir fyrir sér í ljósi meðferðar málsins. Í svari ráðherrans kemur m.a. fram að ekki er hér um að ræða að verið sé að túlka á nýjan hátt sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það er mjög gott að það hafi komið fram vegna þess að efasemdirnar eru orðnar miklar frá sveitarstjórnarmönnum þegar þeir sjá mál fara í þennan farveg. En ég tel rétt og bara gott fyrir okkur öll, bæði okkur þingmenn og eins hæstv. umhverfisráðherra, að hún geti útskýrt það fyrir okkur hvers vegna þetta mál hefur dregist svo á langinn og þá jafnframt hvenær megi vænta þess að aðalskipulag Skeiða- og Gjúpverjahrepps fái staðfestingu.

Ég veit til þess að sveitarstjórnarmenn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafa óskað eftir fundi með ráðherra, en hafa ekki fengið svör við því hvenær af þeim fundi geti orðið — hæstv. umhverfisráðherra leiðréttir mig ef af honum hefur orðið síðustu tvo dagana. En það er mjög miður vegna þess að óvissa í skipulagsmálum er gríðarlega slæm. Þegar sveitarstjórnir hafa lagt í mikla vinnu við að vinna aðalskipulag og fara með það í gegnum allt hið flókna ferli sem skipulags- og byggingarlögin gera ráð fyrir — og íbúar sveitarfélagsins hafa fylgst með þeirri vinnu, tekið þátt í henni, byggja væntingar sínar á því hvernig niðurstaða skipulagsins kemur til með að líta út — er öll óvissa og allar tafir á þessum liðum mjög slæm. Það eru réttindi borgaranna að fá að líta á sitt aðalskipulag, vita hvaða skipulag er í gildi, hvaða skilmálar eru hafðir þar uppi, þegar fólk er að velta því fyrir sér hvar það ætlar að velja sér búsetu, hvar það ætlar að byggja upp fyrirtæki sín, hvert það ætlar að senda börn sín til náms o.s.frv.

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hvenær þetta aðalskipulag verði staðfest eða fái afgreiðslu í hinu háa umhverfisráðuneyti og fari þá jafnframt aðeins yfir stjórnsýsluhliðina, sem ég kem betur inn á í seinni ræðu minni.