138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

bréf forsætisráðherra til forsætisráðherra Bretlands og Hollands.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vísa því á bug sem hv. þingmaður heldur fram að ég hafi ekki kynnt mér Icesave-samningana. Þetta er búið að vera aðalmálið hjá þessari ríkisstjórn og þeir eru óteljandi fundirnir þar sem farið hefur verið yfir þessi mál í einstökum atriðum. Ég held að á því máli hafi verið haldið eins vel og kostur er miðað við þær aðstæður sem við vorum í.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þegar við lukum störfum hér í sumar skrifaði ég forsætisráðherrum Hollands og Bretlands bréf sem ég hef ekki fengið svar við. Það heldur þó ekki fyrir mér vöku að ég hafi ekki fengið svör vegna þess að það tekur tíma í svona milliríkjadeilu að fá svör við bréfum. Stöðug samskipti hafa verið á milli forsætisráðherra þessara landa um þessi mál, og einnig fjármálaráðherra landanna, og ég vænti þess að ég fái þessi bréf. Í þessum bréfum skýrði ég fyrst og fremst sjónarmið Íslands í þessari deilu og bað um, ef það gæti leyst málið, að fá fundi með þessum ráðherrum.

Þeir sem hafa verið í forsvari fyrir okkur í þessari milliríkjadeilu hafa margoft farið yfir það hvort rétt væri að ég hitti forsætisráðherrana og það hefur ekki verið talið nauðsynlegt. Utanríkisráðherrar landanna hafa hist sem og fjármálaráðherrar og ég held að miðað við allar aðstæður getum við bærilega við unað hvernig þessi deila hefur verið leyst.