138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:40]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni spurningarnar um þessar hlutfallstölur um, 10% kosningarbærra manna annars vegar og 1/3 hluta þingmanna hins vegar. Fyrri talan er auðskilin og það er fyrst og fremst þess vegna sem hún var valin. Víða er miðað við að 7–8% kosningarbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu en við rákum okkur á það þegar við viðruðum þessar tillögur fyrst að sú tala vafðist fyrir mönnum, menn fóru að reyna að reikna út hvað þetta gætu verið margir af 185.000 kjósendum þannig að við enduðum á 10%, það er auðreiknað, það er auðútfundið. Ein af hugmyndunum er svo að ræða þetta mál frekar í allsherjarnefnd og reyna kannski að fá þessa tölu lækkaða niður í 8% eða 7% ef hægt er. Það að safna 18.500 undirskriftum er gríðarlega mikið verk og gæti virkað sem of hár þröskuldur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Einn þriðji hluti þingmanna er það sem tíðkast í Danmörku. Okkur hugnast það fyrirkomulag mjög mikið, ég held að það hafi ekki verið notað þar nema einu sinni. Það kallar á mjög mikla ábyrgð af hálfu minni hluta þingmanna hverju sinni um að þeir misbeiti ekki þessu ákvæði en það veitir líka meiri hlutanum á þingi mikið aðhald að hafa þetta yfirvofandi og hefur leitt til óumdeildari lagasetningar, a.m.k. í Danmörku, og mér finnst full þörf á því á Íslandi.

Hvað varðar Lýðræðisstofu skal ég reyna að tæpa á því sem ég get varðandi hana það sem eftir er tímans. Þar sem ég þekki til og bjó lengi var einfaldlega til stofnun í stjórnsýslunni sem sá um að kynna svona mál með einföldum og hlutlausum hætti. Það er einfaldlega mjög mikilvægt að slík kynning sé óumdeild, fagleg og lendi ekki í flokkspólitískum deilum (Forseti hringir.) þannig að þaðan er sú hugmynd komin.