138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

23. mál
[12:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga um að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Eins og fram kom í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar er þetta ekki alveg nýtt mál hér innan þessara veggja en líklega hefur aldrei verið mikilvægara en nú að þetta mál fái framgang og hljóti hljómgrunn meðal þingsins, og ekki síst ríkisstjórnar, til að finna lausn á þeim vanda sem allir gera sér grein fyrir að er fyrir hendi varðandi afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Það er búið að undirstrika og sannreyna þær fullyrðingar sem íbúar, sveitarstjórnarmenn og atvinnurekendur á Vestfjörðum hafa haldið á lofti, að það öryggisleysi sem þessir aðilar búa í raun við varðandi raforkuafhendinguna er óásættanlegt. Þá er ég ekki að segja að þeir aðilar sem standa að flutningi á raforku og framleiðslu hennar hafi ekki lagt sig fram við að finna lausnir, heldur er umhverfið einfaldlega þannig að þeim er það annaðhvort ekki heimilt eða þeir hafa ekki þau tæki og tól sem þarf.

Það kemur fram í skýrslum og samantektum sem gerðar hafa verið, eins og fram hefur komið hér fyrr í dag, frú forseti, að samfélagslegur kostnaður á Vestfjörðum af þessu óöryggi er mikill og menn hafa reynt að áætla hann 84 millj. kr. á ári. Það er mjög erfitt að gera sér það í hugarlund að þeir sem standa í framleiðslu á vörum og reyna að halda uppi þjónustu, hvort sem það er almenn þjónusta eða framleiðsla á hátæknivörum, skuli búa við það að rafmagnið geti haft áhrif á það hvernig framleiðsla þeirra og fyrirtæki ganga, að flökt í afhendingu á rafmagni eða jafnvel útsláttur geti valdið milljónatjóni á tækjum og tólum. Það er algjörlega óásættanlegt. Ég efast um að nokkrar tryggingar nái yfir slíkt svo dæmi sé tekið þó að ég viti það svo sem ekki.

Það er því mikilvægt að við stöndum öll saman að því að sjá til þess að landsmenn allir búi við öryggi í afhendingu á þessum þarfa nútímaþjóni sem rafmagn er því að ekkert okkar vill nú vera án þess. Fyrst og fremst er þetta held ég réttlætismál og samfélagsmál varðandi þennan landshluta.

Eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson benti á hafa komið fram þrjár hugmyndir um hvernig bæta megi þetta öryggi. Ég held að flestir séu á því að það sé skynsamlegast að auka framleiðslu á raforku á Vestfjörðum og það er ljóst að þó að samfélagslegur kostnaður heildarinnar af því sé nokkur er hann einnig þó nokkur af öðrum leiðum sem eru inni í myndinni. Forsendan fyrir því að hægt sé að ráðast í virkjanir, t.d. Hvalárvirkjun, er að heimilað verði að þetta tengigjald sem er bundið í lög verði niðurfellt. Það er algjör forsenda fyrir því að þarna sé einhver möguleiki á að þetta sé arðbært.

Það er því mjög mikilvægt fyrir utan þessar tillögur að endurskoðun á raforkulögum gangi mjög hratt fyrir sig því að það er hreinlega hægt að benda á, eins og fram kemur í greinargerð með þessari tillögu, að það geti verið nauðsynlegt að hafa slíka heimild hreinlega vegna almannahagsmuna, að það sé hægt að fella niður slík gjöld og hafa svigrúm í þessum lögum.

Það er í sjálfu sér ekkert mikið meira um þetta að segja annað en að undirstrika að þær aðstæður sem nú eru í þessum landshluta eru óásættanlegar. Með því er ég svo sem ekkert að segja að það eigi ekki við annars staðar en það er mjög áberandi í þessum landshluta að þetta umhverfi er ekki til þess fallið að laða sín starfsemi sem notar raforku því að það sjá allir í hendi sér að ef öryggið er ekki til staðar til að halda uppi atvinnurekstri eða vera með starfsemi fara menn ekki út í fjárfestingar eða framkvæmdir.

Fjölmargir aðilar hafa skorað á ríkisvaldið að beita sér í þessu og er sú tillaga sem hér er sett fram m.a. sett fram til þess að hvetja ríkisvaldið og koma með tillögu um hvernig hægt er að finna lausn á þessu. Því gengur ályktunin út á að gerð sé tímasett áætlun þannig að þeir sem hafa áhuga á því og vilja til þess að bæta þetta öryggi sjái líka hver vilji ríkisvaldsins er, hvernig ríkisvaldið sér að það verði gert og á hvaða tíma.

Ég vonast til þess að þetta mál fái hraða og góða umfjöllun í þingnefndum og hjá ríkisstjórn og verði vel tekið og kallaðir til þeir sem er málið skylt ef því er að skipta. Það ætti að vera einfalt að mínu viti fyrir ríkisvaldið að koma með þá viljayfirlýsingu sem óskað er hér eftir og að sett verði í gang vinna við að gera tímasetta áætlun um hvenær ríkið ætlar að vera búið að tryggja raforku til Vestfjarða.