138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[14:00]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir hvert orð hv. þm. Þórs Saaris hér á undan. Við erum í þeirri glímu að skapa atvinnu sem sparar gjaldeyri og skapar gjaldeyri. Álbræðslueinsleitnishugsun sjálfstæðismanna og framsóknarmanna gengur gegn því.

Hvar er hin græna stóriðja sem við töluðum um í gær, (Gripið fram í.) er hún núna gleymd? (Gripið fram í.) Kemur þetta eitthvað við kaunin? (Gripið fram í: … í lausnum.) Hvað með grænu stóriðjuna? (JónG: Hvar er hún?) Hvað með stóriðju sem skapar atvinnu, skapar gjaldeyri og sparar gjaldeyri? (Gripið fram í.) Vilja hinir stalínísku þungaiðnaðarmenn hér í salnum standa fyrir því að skapa störf í álverum sem kosta 100–200 milljónir hvert (Gripið fram í.) og kenna svo hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra um tafir á Bakka?

Hverjar voru tafirnar? Hverjar voru tafirnar þegar hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins skrifaði undir hverja viljayfirlýsinguna á fætur annarri? Af hverju var álverið ekki byggt? Og hver er staða orkufyrirtækjanna í dag? Þau eiga ekki fyrir endurnýjun lána og þau eiga ekki fyrir nýframkvæmdum. Ég vil biðja hv. þingmenn, stóriðjusinna, að fara að hugsa svolítið út fyrir þennan einsleita ramma, það er löngu kominn tími til.

Hver er reynslan úti á landsbyggðinni þar sem allt gengur mjög vel? Hvar gengur verst? Jú, það gengur illa með sveitarfélagið í Fjarðabyggð af því að þeir hafa fengið álver, og það gengur illa að hluta til á Húsavík og í Reykjanesbæ af því að þeir eru stöðugt að bíða eftir álveri. Það er mikill uppgangur á landsbyggðinni, (Gripið fram í.) leyfum þúsund blómum að blómstra í atvinnumálum, ekki vera með öll eggin í einni körfu. (Gripið fram í.) Horfið á það og skoðið það. Við fáum ekki krónu í gjaldeyristekjur af álbræðslu, 65% fara í aðföng, 35% fara (Forseti hringir.) síðan í að greiða af erlendum lánum vegna virkjana. (JónG: Óskaplegt bull er þetta.)