138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[14:05]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg af hverju umræða um atvinnuuppbyggingu á einu landsvæði sem ríkisstjórnin er búin að skuldbinda sig til að ráðast í — skuldbinda sig — hvers vegna hún þarf að snúast upp í umræðu með eða móti einum atvinnuvegi í landinu sem eru álver, ég bara átta mig ekki á því. (JónG: Ekki við heldur.)

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að taka þátt í því vegna þess að áliðnaðurinn er gríðarlega mikilvægur hér á landi. Ég get ekki skilið hvernig hv. þm. Tryggvi Þórhallsson (Gripið fram í.) — Tryggvi Þór Herbertsson, afsakið, það er ekki undarlegt að maður sé orðinn ringlaður eftir þessa hringekju hér — getur sagt að Alcoa hafi verið búið að taka ákvörðun um að koma hingað, á þessum tíma vissu þeir ekki hversu mikil orka er þarna á svæðinu (Gripið fram í.) vegna þess að það liggur ekki endanlega fyrir, (Gripið fram í.) virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (SVÓ): Forseti biður þingmenn um að hafa þögn í salnum meðan ræðumaður talar.)

Forsenda þess að einhver geti tekið ákvörðun um uppbyggingu þarna eða nýtingu þessarar orku er sú að menn viti hversu mikil orkan er, (Gripið fram í.) og það er algjör forsenda. Þess vegna erum við með þessari aðgerð að rjúfa þá kyrrstöðu sem þarna hefur orðið í orkuöflunarmálum með því … (Gripið fram í: Það er Samfylkingin …) (Gripið fram í: … stoppaði rannsóknirnar.) Virðulegi forseti, ef ég má fá hljóð í þessum sal get ég líka sagt að það hefur undrað mig í þessari umræðu hversu litla trú hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (Gripið fram í.) virðast hafa á þessu fyrirtæki, Alcoa, ef þeir telja að Alcoa geti ekki komið með svör um hvort þeir ætli að byggja upp á Bakka eða ekki næsta haust. Um það snýst þessi viljayfirlýsing, (Gripið fram í.) þ.e. að það liggi fyrir hvaða orkumagn er á svæðinu og strax næsta haust verði gengið til samninga um nýtinguna, sama hvað viðkomandi heitir. Þeir sem eru tilbúnir næsta haust fara inn í ferlið. (Gripið fram í.) Það er það sem skiptir máli, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, og mér finnst það undarlegt hvernig menn tala hérna. Um þetta snýst þetta mál, að það verði myndarleg atvinnuuppbygging fyrir norðan (Forseti hringir.) með stuðningi þessarar ríkisstjórnar og ég held að það væri meira varið í það fyrir þetta svæði ef hv. þingmenn (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) legðust á árar með okkur í stað þess að stunda þann málflutning (Forseti hringir.) sem hér er stundaður í dag og gegn vilja heimamanna.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Við erum aðilar, sameiginlegir aðilar (Forseti hringir.) að þessu markmiði, heimamenn og ríkisstjórnin.