138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur hér gert ágæta grein fyrir efnisatriðum þessa máls og ætla ég ekki að gera athugasemd við það. Hæstv. ráðherra hefur auðvitað flutt okkur skilaboð frá Brussel um það hvernig við eigum að haga þessum málum og ráðherrann gerir það af samviskusemi enda er þetta ráðherra sem vill helst að við höfum þennan háttinn á á sem flestum sviðum samfélagsins að ráðherrar á Íslandi komi til íslenska þingsins og beri þeim skilaboð frá nefndum í Brussel. Nóg um það. (Iðnrh.: Ertu á móti EES-samningnum?)

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra í tilefni af þessu máli hvert mat hæstv. ráðherra sé á framgangi þess. Nú var fjárfestingarsamningur samþykktur á þingi í vor og við erum núna að fjalla um breytingar á honum en varðandi þetta verkefni almennt vildi ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvert mat hennar á framgangi málsins sé, hvort hún telji að framgangur alls þessa verkefnis sé í góðu horfi og hvort einhverjir þættir hafi gert það að verkum að framkvæmdir og uppbygging suður frá hafi tafist, hvaða þættir það þá séu og hvort hæstv. iðnaðarráðherra sé sáttur við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið annars staðar í stjórnkerfinu sem kunna að hafa haft áhrif þarna á.