138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fullyrðir að ég sé ekki starfi mínu vaxin. Ástæðan fyrir því að ég kom hér upp og spurði hv. þingmann hvað hann hefði fyrir sér í því að Alcoa væri að fara annað, hann fullyrti það úr þessum ræðustól áðan, var að ég vildi fá skýringu á þeirri fullyrðingu. Svo kemur þingmaðurinn upp og segir að hann hafi gefið sér það og þess vegna hafi hann leyft sér að fullyrða það. (JónG: Hefur ráðherrann ...?) Virðulegi forseti. Ég hef auðvitað fundað með þessum aðilum, að sjálfsögðu gerðum við það vegna þess að þessir aðilar eru enn þá stór hluti af öllu ferlinu fyrir norðan. Þeir eru enn þá aðilar að þessu sameiginlega umhverfismati og mér af vitandi hafa þeir ekki gengið út úr því. Þeir hafa líka sett fjármuni í rannsóknir fyrir norðan þannig að þeir eru aðilar að þessu ferli.

Hv. þingmaður horfir fram hjá því að við tókum viljayfirlýsingu sem var hætt að skila nokkrum sköpuðum hlut, nokkurri framþróun í málinu, breyttum ferlinu og komum því upp á næsta stig þannig að orkuöflunin yrði tryggð sem allra fyrst. Það er það sem við gerðum. Ég verð að viðurkenna að mér þykir hv. þingmaður ganga ansi langt í ræðustól þegar hann talar Alcoa úr landi. Það er enginn að því nema hv. þingmaður sem fullyrti það í ræðustól áðan. Við erum enn þá í fullu samstarfi við þá á þeim sviðum sem ég hef nefnt og munum vera það áfram.

Ef hann treystir ekki Alcoa til að standa hér inni og vera þátttakandi á viðskiptalegum forsendum heldur telur að Alcoa þurfi sérstakt skjól í ríkinu hefur hann ekki mikla trú á því öfluga fyrirtæki.

Hvað varðar garðyrkjubændur verð ég að segja að mér finnst alveg með ólíkindum að heyra hv. þingmann (Forseti hringir.) lepja upp ósannindi um að við höfum ekki fundað vegna þess að það er skráð í bækur iðnaðarráðuneytisins að við höfum átt fundi og samstarf. (Forseti hringir.) Það er orðið formlegt, skipuð hefur verið nefnd sem á að komast að niðurstöðu í málinu þannig að hv. þingmaður fer ítrekað með rangt mál.