138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[16:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta með mengandi stóriðjuna og þann einfaldleika sem gjarnan er dreginn upp í þessu, þá vil ég bara benda hv. þingmanni á að tala við kollega sinn úr Samfylkingunni sem tók til máls í gær og taldi að ferðaþjónustan á Íslandi mengaði meira en stóriðjan. Hann hefur alveg örugglega eitthvað fyrir sér í því eða ég vænti þess að menn séu ekki að fara með fleipur hér.

Varðandi efnahagskerfi okkar og skammtímalausnir með orkufrekum iðnaði er áætlað að álverið í Helguvík muni skila um 95 milljörðum inn í íslenskt efnahagskerfi til lengri tíma litið miðað við 5% ávöxtun. Það eru engir smáaurar og þá er ekki allt talið.

Ég mun reyna að koma á sprotaþing á morgun og það þarf ekki að vera að etja atvinnugreinum svona saman. Það þarf ekkert að búa til þessa einföldu mynd að ef við bara hættum við álverin þá verði bara sprotafyrirtæki, og ef við höldum áfram með þessi tvö álver sem eru í pípunum verði ekki sprotafyrirtæki. Þetta er alveg eins og menn hafa sagt með hvalveiðarnar, andstæðingar þeirra í gegnum árin og við þekkjum þetta: Hvalaskoðun bara hættir ef það verða hvalveiðar. Hún hefur aldrei verið öflugri, hv. þingmaður, en núna á undanförnum árum eftir hvalveiðar hófust á ný 2003. Við eigum að hætta að etja þessum atvinnugreinum saman, þó að við séum að flytja mál okkar hér, við sem viljum fara í þessar framkvæmdir og þær virkjanir sem því fylgja, að við séum eitthvað á móti öðrum iðnaði eða annarri atvinnuuppbyggingu í landinu. Að sjálfsögðu ekki.

Það er alveg tími í sérstaka umræðu til að fara yfir það hverju orkufrekur iðnaður á landinu hefur skilað í sprotafyrirtækjum. Og það er líka alveg tilefni til annarrar umræðu um það hvað orkufrekur iðnaður og orkuframleiðslufyrirtækin í landinu og dreifingarfyrirtækin hafa sett mikið í umhverfismálin. Það eru sennilega engir aðilar sem hafa sett eins mikið í umhverfismál á Íslandi á undanförnum árum. Ég tók það fram í ræðu minni áðan að á árunum 2001 til 2006 settu orkufyrirtækin (Forseti hringir.) yfir milljarð í umhverfismál. Fyrir utan 500 milljónir sem fóru í alls konar vísinda- og rannsóknarstarf sem margt af er tengt umhverfisþáttum.