138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta viðskiptanefndar mæli ég fyrir nefndaráliti í því máli sem hér er til umfjöllunar, um vörumerki. Til þess að gefa eilitla innsýn inn í viðfangsefnið erum við stödd á þeim stað að kveðið er á um tæmingu réttinda í 1. mgr. 7. gr. vörumerkjatilskipunar Evrópska efnahagssvæðisins og reynt hefur á túlkun þessa ákvæðis í tveimur málum, annars vegar í máli EFTA-dómstólsins frá 1997 og hins vegar í máli Evrópudómstólsins frá 1996.

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt orðalagi þessarar tilskipunar gætu aðildarríki EFTA valið hvort kveðið væri á um svæðisbundna eða alþjóðlega tæmingu í landslögum. Evrópudómstóllinn komst hins vegar að öndverðri niðurstöðu, þ.e. að á Evrópska efnahagssvæðinu gilti svæðisbundin tæming. Í kjölfar þessara ólíku niðurstaðna skapaðist réttaróvissa innan EFTA-ríkjanna sem var til lykta leidd í máli EFTA-dómstólsins 8. júlí 2008 en niðurstaðan í því máli var sú að 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar skuli túlki á þann veg að svæðisbundin tæming gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Núverandi ákvæði 2. mgr. 6. gr. vörumerkjalaga fer samkvæmt þessu í bága við ákvæði tilskipunarinnar og er því nauðsynlegt að taka til endurskoðunar orðalag ákvæðisins þannig að það samræmist ákvæði tilskipunarinnar.

Þetta er nú komið til kasta Alþingis en frumvarp sama efnis var til umfjöllunar og hlaut afgreiðslu frá viðskiptanefnd á síðustu tveimur löggjafarþingum. Þá bárust nefndinni umsagnir auk þess sem gestir komu á fund viðskiptanefndar á fyrri þingum. Eins og áður segir er með frumvarpinu lögð til breyting á lögum um vörumerki, um tæmingu réttinda vörumerkis, að hún verði þannig bundin við EES-svæðið í stað alþjóðlegrar tæmingar.

Reglan um tæmingu vörumerkjaréttar varðar rétt eiganda merkis til að stjórna frekar markaðssetningu á grundvelli einkaréttar síns. Sé vara, auðkennd tilteknu vörumerki, komin á markað fyrir atbeina eða með samþykki eiganda þess getur hann ekki haft frekari áhrif á markaðssetningu hennar, t.d. sölu, leigu, inn- eða útflutning. Gengið hefur verið út frá því í íslenskum vörumerkjarétti að tæming næði til alls heimsins en það er ekki tekið með skýrum hætti fram í gildandi lögum. Tæming vörumerkjaréttar byggist á rétti vörumerkjahafa samkvæmt lögum um vörumerki, þ.e. að aðrir en eigandi vörumerkis megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem eru eins og vörumerki hans eða lík því.

Samkvæmt áðurnefndum dómi EFTA-dómstólsins 8. júlí 2008 samræmist alþjóðleg tæming vörumerkjaréttinda ekki ákvæði vörumerkjatilskipunarinnar. Þarf því að breyta lagaákvæðinu og er með þessu frumvarpi lögð til lágmarksbreyting laganna svo að hún samræmist dóminum.

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Mig langar, frú forseti, að víkja aðeins að nefndaráliti minni hluta en þar kemur fram það álitaefni sem kannski mun lita umræðuna hér á eftir, en þar segir:

„Verði frumvarpið að lögum mun samkeppni minnka sem leiðir af sér aukna fákeppni og hærra vöruverð. Um þetta voru umsagnaraðilar sammála“ og sá sem hér stendur. „Ástæða þeirrar breytingar sem kveðið er á um í frumvarpinu er sú að Íslendingar eru nauðbeygðir af Evrópudómstólnum að fara þá leið sem frumvarpið mælir fyrir um þrátt fyrir að það sé óumdeilt að það fari gegn hagsmunum neytenda í landinu.“ Þar er ég aftur sammála.

Ég held tilvitnun minni áfram:

„Það er augljóst að Íslendingar hafa ekki verið nægjanlega á varðbergi þegar tilskipanir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar.“

Það leiðir kannski umræðuna að því álitaefni sem við stöndum frammi fyrir núna, þ.e. að við erum að taka við tilskipun sem við erum kannski í hjarta okkar ósammála en höfum takmörkuð áhrif á. Í því sambandi langar mig að vitna í nýútkomna bók sem fjallar um stöðu Íslands og Evrópusambandsins sem ber heitið: Frá Evróvision til evru.

Þar segir á bls. 234, með leyfi forseta, þegar fjallað er um EES-samninginn:

„Eftir að EES-samningurinn var gerður hefur samstarf innan ESB bæði orðið nánara og færst út til nýrra sviða sem ekki falla undir EES-samninginn eins og til að mynda peningamálasamstarf og aukið samstarf á sviði utanríkis- og varnarmála. Þróunin hefur um leið fært EES-ríkin meira út á hliðarlínuna í evrópsku samstarfi.“

Svo segir áfram:

„Leiða má líkur að því að þróunin í framkvæmd samningsins hafi undanfarin ár verið með þeim hætti að hann takmarki fullveldi Íslands meira nú en í upphafi og brjóti jafnvel fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar. Áhrifaleysið birtist m.a. í því að Íslendingar þurfa að taka við lögum og reglugerðum frá ESB en hafa nánast ekkert haft um innihald þeirra að segja og hafa þar með afar litla möguleika á því að koma hagsmunamálum landsins á framfæri við núverandi aðstæður. Gera má ráð fyrir að enn hafi þrengst um möguleika ESB-ríkjanna til að hafa áhrif í samstarfinu eftir að tólf ný ríki bættust við ESB 2004 og 2007 einfaldlega vegna þess að við fleiri ríki er að etja. Nær öll stefnumótun og ákvarðanataka um framtíðarsamstarf, reglugerðir og lagasetningu fer fram í stofnunum Evrópusambandsins þar sem íslensk stjórnvöld hafa mjög takmarkaða aðkomu og enn minni áhrif.“

Þetta er náttúrlega kannski það helsta álitaefni sem við stöndum frammi fyrir, frú forseti, og svona rétt í lokin langar mig að vitna í viðtal í Viðskiptablaðinu í dag við fyrrverandi fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, sem varpar einnig ljósi á þá stöðu sem Ísland er í í þessu alþjóðlega umhverfi. Þar segir Árni:

„Bandaríkjamenn líta bara svo á að við séum hluti af Evrópu og að Bretar og ESB eigi að sjá um það ef hér skapast erfiðleikar. Við erum hinum megin við línuna.“

Svo segir Árni aftur:

„Síðan sér maður að Norðurlöndin meta sitt samband í Evrópusambandinu ofar öllu öðru. Norðurlandasamstarfið er bara aukageta. Þó að sambandið milli Norðurlandanna skipti vissulega máli er ESB þeim bara svo miklu mikilvægara. Þó að þeir vilji hjálpa okkur treysta þeir sér ekki til þess nema það sé í takt við það sem ESB segir.“

Að lokum vil ég vitna í orð Árna þar sem hann segir:

„Yfir línuna er því hægt að segja að Norðurlöndin geri ekkert nema í gegnum Evrópusambandið og svo það að sem EES-þjóð erum við gestir í þessu ESB-samstarfi, það leynir sér ekki.“

Þannig segist Árni sjá Íslendinga sem dálítið utanveltu og vinalausa og þá hafi samstarf við nágranna- og vinaþjóðir brugðist.

Í ræðu minni fór ég kannski aðeins út í Evrópusambandið en er hér fyrst og fremst að mæla fyrir nefndaráliti um vörumerki sem fer nú áfram til umræðu í hinu háa Alþingi en ég gat ekki orða bundist að ræða eilítið um Evrópusambandið.