138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:49]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég mæti hér í annað skipti í dag til að tala um hið gríðarlega mikilvæga mál, gæði í lagasetningu, svo mjög ber ég það mál fyrir brjósti. Gæði Alþingis við lagasetningu hafa verið lakari en hjá þjóðþingum annars staðar á Norðurlöndunum, eins og ég kom inn á áðan, og á það hefur umboðsmaður Alþingis bent. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa til gæða laga að þau séu skýr. Fólk á að geta lesið rétt sinn og skyldur út úr lögunum.

Þá vil ég beina sjónum að því frumvarpi sem nú er til umræðu og þeim ákvæðum sem fjalla um kynjahlutföll í stjórnum, bæði þá hlutafélaga og einkahlutafélaga. Og, með leyfi frú forseta, vil ég lesa upp úr 2. gr. frumvarpsins:

„Einnig skal gætt að kynjahlutföllum í stjórnum …“ o.s.frv.

Ef ég er stjórnandi og ber ábyrgð á hlutafélagi eða einkahlutafélagi hlýt ég að spyrja mig hvað þessi lagasetning feli í sér fyrir mig. Hvaða skyldu get ég leitt af þessu ákvæði verði það að lögum? Ég held einfaldlega að þetta sé alls ekki nógu skýrt. Engin viðurlög liggja við og ég held að jafnvel megi ganga svo langt að jafna þessu við að setja í lög eitthvað á borð við: „Einnig skal gætt að kynjahlutföllum í stjórnum og svo þarf að passa að muna að hringja oftar í mömmu.“ Ég held að ákvæðið í frumvarpinu hafi álíka mikil áhrif og sú setning ef hún yrði lögleidd.

Svo vil ég, með leyfi frú forseta, lesa aðeins upp úr viðtali sem blaðamaðurinn Anna Pála Sverrisdóttir tók og birtist í Morgunblaðinu 11. júlí 2005 þar sem rætt var við mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins. Hann segir þar, frú forseti:

„Þið“ — þ.e. Íslendingar — „búið að afar góðri löggjöf varðandi jafnan aðgang kvenna og karla að störfum. En aðferðir til að framfylgja þeirri löggjöf eru veikar og löggjöfin er því að vissu leyti bitlaus.“

Þetta, frú forseti, er vandamál sem hrjáð hefur okkur Íslendinga, jafnréttislöggjöf okkar og tengda löggjöf í gegnum tíðina.

Annað sem ég vil segja um frumvarpið er að aukin upplýsingaskylda um kynjahlutföll er að sjálfsögðu mjög af hinu góða og ég hrósa fyrir þau ákvæði, en um leið hvet ég viðskiptanefnd til að skoða betur þau ákvæði sem ég hef hér rætt um og varða sem sagt skylduna til að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum, sem ég tel að sé alls ekki nógu skýr, horfa til Norðmanna sem hafa sett ákvæði um lágmark 40% þátttöku kynjanna í stjórnum með gríðarlega góðum árangri af því að þar var ráðist að þeirri kerfislægu skekkju sem enn hrjáir íslenskt viðskiptalíf.