138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[18:40]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hingað kominn til að lýsa stuttlega yfir mikilli ánægju minni með það að einhverjir hér á þinginu skuli þora að ráðast gegn því tabúi sem vísitölutrygging hefur verið nú um áratugaskeið. Vísitölutrygging er lyf sem hægt er að gefa efnahagslífinu við ákveðnar aðstæður, þegar hiti í því er kominn upp fyrir öll heilsusamleg mörk er hægt að taka upp vísitölu um tíma, rétt eins og allir vita að ef sótthiti er mikill — miðað við að sjúklingurinn þjáist af einhverjum venjulegum sjúkdómi — þá er góð hugmynd af gefa honum magnyl, það hrífur, hitinn lækkar. Nú skyldi maður varast að hugsa sem svo að úr því að magnyl hefur þessi áhrif á sjúklinginn, þá sé best að troða sem mestu af því í hann, vegna þess að magnyl, sé þess neytt um langan tíma í óhóflegum skömmtum, er banvænt. Sama gildir um þessa vísitölu, fyrirgefiði, verðtryggingu. Hún þjónaði tilgangi sínum, hún gerði sitt gagn. Núna er hún orðin að sjúkdómi og er verri en sjúkdómurinn sem hún átti að lækna. Fyrir utan það þá er það fullkomlega geggjuð hugmynd að ætla að tryggja gjaldmiðil, verðgildi gjaldmiðils, um lengri tíma. Maður sem selur belju á 60 þús. kr. og lánar nágranna sínum 60 þús. kr., segjum til fimm ára, (Forseti hringir.) og ætlar að fá aftur verðgildi beljunnar, hann er ekki að gera rétta hluti. Það er ekki hægt að tryggja að hann geti keypt sér belju aftur þegar hann fær verðtryggðu peningana til baka. (Forseti hringir.)