138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[18:54]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi framsóknarmanna þar sem lagt er til að sett verði þak á verðtryggingu lána. Þetta er liður í því að afnema verðtrygginguna og í samræmi við stefnu Vinstri grænna en á síðasta landsfundi var samþykkt að leita bæri leiða til að afnema verðtrygginguna. Ég held ég geti sagt fyrir hönd margra stjórnarliða að þeir séu hlynntir því að farið verði í aðgerðir til að aflétta verðtryggingunni. Ég tel mjög nauðsynlegt að innleiða einhvers konar þak á verðtrygginguna nú þegar Alþingi er búið að samþykkja lög um almenna greiðslujöfnun. Almenn greiðslujöfnun felur nefnilega í sér að höfuðstóll verðtryggðra fasteignalána heldur áfram að hækka í samræmi við neysluverðsvísitölu á meðan greiðslubyrðin hækkar í samræmi við greiðslujöfnunarvísitölu. Þak á verðtrygginguna mun þýða það að færri enda með yfirveðsettar eignir eftir að hafa farið í almenna greiðslujöfnun.

Höfuðstóll lána hefur hækkað um 25% eða frá því í janúar 2008 og von er á enn frekari hækkunum, þar sem seðlabankastjóri er búinn að tilkynna áætlun um afnám gjaldeyrishafta á næstunni. Frjálsara útflæði fjármagns mun með tímanum leiða til lækkunar á gengi krónunnar, eða þegar seðlabankastjóri hættir að nota dýr lán AGS til að halda því uppi. Gengislækkun þýðir auðvitað hækkun á verðlagi innan lands og þar með hækkun neysluverðsvísitölunnar, en við það hækkar höfuðstóll lána, ekki síst verðtryggðra fasteignalána.

Ég tel að þak á hækkun verðtryggingar muni draga verulega úr ávinningi bankanna af því að taka stöðu gegn krónunni og fella þannig gengi hennar, en það er talið hafa vegið þungt í bankahruninu síðasta haust. Ég tek jafnframt undir það að það er mikilvægt að meta áhrifin á sparifjáreigendur, en ég geri ekki ráð fyrir að tap þeirra af því að setja einhvers konar þak á verðtrygginguna verði mjög mikið, vegna þess að innleiðing á slíku þaki mun leiða til agaðri peningastjórnunar eða minni útlánastarfsemi, alla vega af hálfu lánastofnana.

Frú forseti. Ég vona að frumvarpið hljóti náð fyrir augum meiri hluta stjórnarliða og mun sem formaður viðskiptanefndar beita mér fyrir því að það fái vandaða umfjöllun og jafnframt jákvæða meðhöndlun.