138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[18:57]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formanni viðskiptanefndar, fyrir það hve vel hún tekur í þetta mál og sérstaklega orð hennar varðandi það hvernig hún sér það fyrir sér að vinna málið í viðskiptanefnd. Ég held það skipti mjög miklu máli að við förum að ræða þetta sem allra fyrst og að við skoðum þær tillögur sem við framsóknarmenn leggjum hér fram og síðan aðrar tillögur sem koma t.d. fram í umsögnum hinna ýmsu aðila sem sendu inn umsagnir á síðasta þingi. Það vill allt of oft gerast að mál sem eru að koma inn frá stjórnarandstöðunni fá ekki einu sinni efnislega umfjöllun í þingnefndum, en það er eitthvað sem ég held að Vinstri grænir hafi upplifað í allt of mörg ár og hafa talað fyrir að breyta. Þegar maður hlustaði á orð hv. þingmanns þá sá maður að það er greinilega ekki bara vilji til að breyta því heldur er ætlunin að breyta því.