138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[12:11]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög brýnt að ræða þjóðgarðinn á Þingvöllum og við höfum séð það í fjölmiðlum núna undanfarna daga að þar er ýmislegt sem betur mætti fara, bæði í umgengni og hvað framkvæmdir og stefnu almennt um framkvæmdir í garðinum varðar.

Eitt af því sem núverandi Þingvallanefnd hefur reynt að tryggja er aukið gagnsæi, m.a. um störf nefndarinnar, með því að ákvörðun var tekin um að birta fundargerðir Þingvallanefndar á vef Þingvalla, thingvellir.is, og ég hef orðið vör við að almenningur og fjölmiðlar sýna þeim fundargerðum áhuga og er það vel.

Ég vil taka fram að nú stendur yfir töluverð vinna í nefndinni við skoðun á tillögu á deiliskipulagi. Það liggja fyrir tillögur um breytingar á lóðarleigusamningum og byggingarskilmálum sem gilt hafa til þessa innan þjóðgarðsins. Ástæðan er kannski sú að 1. júlí nk. renna út allir lóðarleigusamningar sem gerðir voru til tíu ára við eigendur sumarhúsa innan þjóðgarðsins, því hafði verið frestað um hálft ár, þeir áttu að renna út núna um áramótin. Það er mjög brýnt að þessi vinna fari fram og henni ljúki áður en til þess tíma kemur, ella getur svo farið að við þurfum að lengja gildistímann aftur.

Ég vil segja að ég er sammála hv. þingmanni um að það eru ýmsir jákvæðir þættir sem mætti sækja til laganna um frístundabyggð og það er einfalt að gera það með reglugerð um Þingvallaþjóðgarð. Ég veit að það eru félög og samstaða með sumarhúsaeigendum þarna.

Mig langar til að segja aðeins varðandi eignarhaldið að ég er sammála hv. þingmanni um að eignarhald sumarhúsa í þjóðgarðinum á (Forseti hringir.) Þingvöllum verður að vera skýrara en það er núna. Ég tel það í reynd ófært að gerðir séu (Forseti hringir.) lóðarleigusamningar við eignarhaldsfélög og hlutafélög sem enginn veit hver á.