138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fyrirhugaðar skattahækkanir.

[13:47]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur spyr ég um tilgang þessarar fyrirspurnar: Ætlar hv. þingmaður að reyna að draga það fram hvort ég sé með í ráðum eða ekki þegar verið er að taka ákvarðanir eður ei eða er hún að ræða málin efnislega? Auðvitað eru allir fagráðherrar með í ráðum þegar (Gripið fram í: Þú varst …) kemur að þeirra málaflokki. (Gripið fram í: Til hamingju með það.) Ég skýrði áðan, virðulegi forseti, ef hv. þingmaður leyfir mér að klára, að það sem ég gagnrýndi á sínum tíma var það sem fram kom í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu. Það var frumhlaup sem var í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu og það hefur verið viðurkennt af fleiri ráðherrum en mér.

Virðulegi forseti. Þegar kemur að umræðu um ferðaþjónustuna og landsbyggðina erum við að leggja í gríðarlegar fjárfestingar þegar kemur að nýfjárfestingu hér á landi (Gripið fram í.) og við erum líka að leggja í gríðarlegar nýfjárfestingar á næstunni hvað varðar uppbyggingu á ferðamannastöðum. Vinna hefur verið í gangi að undanförnu sem er bæði þverpólitísk og þverfagleg þegar kemur að ferðaþjónustunni, þá í því hvernig við getum aflað tekna til að fara í stórfellda uppbyggingu á ferðamannastöðum, áætlanagerð sem er nauðsynleg vegna þess gríðarlega fjölda ferðamanna sem er farinn að koma hingað til lands. Þetta er gert í sátt við ferðaþjónustuna, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)