138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

skilaskylda á ferskum matvörum.

22. mál
[20:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, 1. flutningsmanni og reyndar flutningsmönnum öllum, fyrir að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar um afar mikilvægt mál, að reyna að finna einhverjar sanngjarnar reglur sem gera það að verkum að innlendir framleiðendur og birgjar sitji við sama eða sambærilegt borð og erlendir framleiðendur eða erlendar vörur í íslenskum verslunum. Ég vil um leið nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það er afar lítil samkeppni á Íslandi eða á íslenskum smásölumarkaði þar sem tvær keðjur ráða markaðnum algerlega, ráða í raun og veru yfir birgjum og þar af leiðandi innlendum framleiðendum, þó svo að menn séu kannski, eins og fram kom í máli hv. 1. flutningsmanns, feimnir við að stíga fram og tala um það.

Ég ætlaði bara að koma upp og reyndar fagna þessari þingsályktunartillögu og tel hana afar mikilvægt skref í því að hér á landi gildi eðlilegt samkeppnisumhverfi í smásöluverslun.