138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég fagna svo sannarlega þeirri þróun sem er að verða, að möguleiki sé á því að börn og unglingar, börn úti á landi, geti stundað nám í heimabyggð sinni. Ég er nú ein af þeim sem bjuggu einir í bænum og svo seinna meir ásamt bróður mínum, frá 16–17 ára aldri. Ég verð að viðurkenna að þó manni hafi fundist maður ofsalega fullorðinn þá var maður, þegar maður horfir til baka, ansi ungur að fara að búa einn í bænum. Mér finnst líka skipta máli að skólarnir horfi dálítið til þess að í staðinn fyrir að vera fyrst og fremst að byggja upp staðbundið nám og síðan dreif- og fjarnám fari þeir að horfa á það að bjóða upp á sem flesta áfanga sem dreifnám, það sé raunar bara hvernig þeir byggja upp námsframboðið hjá sér.

Ég vildi líka benda á að það hafa verið hugmyndir í Suðurkjördæmi um framhaldsskóla, t.d. á Hvolsvelli og í Grindavík. Er möguleiki á að fara frekar þá leið að byggja upp framhaldsdeildir, þá annaðhvort í tengslum við framhaldsskólann í Eyjum, á Hvolsvelli eða Selfossi, og svo Grindavík í samstarfi við (Forseti hringir.) Fjölbrautaskóla Suðurnesja?