138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Íslendingar hafa lengi stært sig af því að vera menntuð þjóð og margir líta á hátækni, hvort sem er í rannsóknum eða iðnaði, sem leiðina út úr kreppunni sem blasir við. Þá hefur tækniþróun síðustu ára og áratuga valdið því að iðngreinar og jafnvel ófaglærð störf krefjast sífellt meiri grunnþekkingar og færni. Þessari þróun hefur fylgt æ ríkari krafa um menntun og er svo komið að framhaldsskólapróf af einhverju tagi er jafnvel talið nauðsynlegt svo viðkomandi sé gjaldgengur á vinnumarkaði.

Háhraðanettenging um stærstan hluta landsins hefur valdið byltingu í möguleikum á að bjóða nemendum fjar- eða dreifnám. Fjar- og dreifnám eru ekki gömul hugtök. Þessi tegund náms gefur nemendum tækifæri til að sækja sér menntun utan veggja hefðbundinna skóla og hefur valdið byltingu, ekki síst fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins sem og fólk sem sækir sér menntun samhliða starfi. Þá er þetta oft eini möguleiki fólks sem þegar er komið út á vinnumarkaðinn til að sækja sér viðbótarmenntun, hvort sem er á framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Þessi kostur er gríðarlega mikilvægur, einkum fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins. Það er ljóst að einföld stærðarhagkvæmni gerir það að verkum að ekki er fýsilegt að byggja upp framhaldsskóla eða háskóla í öllum byggðarlögum landsins auk þess sem smærri skólar eiga erfitt með að keppa við þá stærri hvað varðar fjölbreytni og jafnvel gæði námsframboðs. Þessum smærri byggðarlögum sem og dreifbýli mætti þjóna á annan hátt með nýtingu fjar- og dreifnáms.

Í stað þess að stofna nýja sjálfstæða skóla með tilheyrandi yfirbyggingu og kostnaði mætti fjölga framhaldsskóladeildum líkt og gert hefur verið á Patreksfirði og víðar. Þannig er hægt að semja við stærri skóla sem skipuleggja og bera ábyrgð á kennslunni en kennarar deildanna veita nemendum stuðning og sinna næraðstoð við námið. Þetta fyrirkomulag getur jafnvel orðið til að auka námsframboð umfram hefðbundið staðarnám því að nemendur gætu átt þess kost að sækja námskeið í fleiri skólum en móðurskólanum.

Varðandi háskólana vil ég benda á byltinguna sem Millennium Institute, sem er háskóli Hálanda og eyja í Skotlandi og tengir saman fjölda menntastofnana rannsókna- og fræðasetur með tölvutækninni. Þekkingarnet Austurlands hefur unnið að þróun sambærilegs netháskóla hér á landi. Af þessum sökum hef ég miklar áhyggjur af þeim fyrirhugaða niðurskurði í fjar- og dreifnámi sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þessi áform hafa þegar haft mikil áhrif t.d. í Borgarholtsskóla sem hefur verið í fararbroddi í uppbyggingu dreifnáms. Skólanum gert að skera niður nemendagildi um 50%. Afleiðingarnar verða þær að ekki verður hægt að taka inn nýja nemendur um áramót og núverandi nemendur verða að hægja verulega á námi sínu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er reynslan sú að kostnaður við hvern nemanda í dreifnámi í Borgarholtsskóla er lægri en kostnaður við nemendur í staðnámi. Því verða afleiðingar þessa niðurskurðar annaðhvort þær að nemendur hrökklast hreinlega úr námi eða þeir reyna að komast í staðnám með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir sjálfan sig, samfélagið og ríkissjóð.

Ég hef líka miklar áhyggjur af því hvað lykilmenntastofnunin í íslensku samfélagi, Háskóli Íslands, hefur sinnt fjar- og dreifnámi illa. Það var nú bara fyrst eftir að hann sameinaðist Kennaraháskólanum sem ég sá einhverja breytingu verða á starfi þeirra og áherslu varðandi dreif- og fjarnám og þá fyrst og fremst á hinu svokallaða mennta- og vísindasviði, sem er raunar hinn gamli Kennaraháskóli. Í samanburði get ég t.d. horft á sjálfa mig, sem er í meistaranámi í alþjóðasamskiptum, þar er ekkert boðið upp á að nýta þessa tækni á meðan maðurinn minn, sem er í kennslufræðum en er samt í staðnámi, getur fullkomlega nýtt sér tæknina í sínu námi. Þar er þeim sem eru skráðir í fjarnám eða staðnám boðið upp á alla fyrirlestra á netinu. Því vil ég varpa fram eftirfarandi spurningum til menntamálaráðherra:

1. Hver er framtíðarsýnin varðandi uppbyggingu dreif- og fjarnáms í háskólum?

2. Hver er framtíðarsýnin varðandi uppbyggingu dreif- og fjarnáms í framhaldsskólum?

3. Hvernig samrýmist sú framtíðarsýn niðurskurði á fjárlögum til dreif- og fjarnáms?

4. Hyggst ráðherra skipa starfshóp til að vinna að uppbyggingu dreif- og fjarnáms?

5. Hvernig telur ráðherrann að hægt sé að innleiða betur aðferða- og hugmyndafræði dreif- og fjarnáms í staðbundið nám hjá lykilskólastofnunum eins og Háskóla Íslands?