138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að hefja máls á þessu máli sem er brýnt viðfangsefni í skólakerfinu nú og full þörf á að ræða í þessum sal sem og víða annars staðar. Ég mun reyna að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður varpaði fram og opna líka á umræður til framtíðar hvað varðar þessa framtíðarsýn því að ég held að þar sé talsvert verk sem er enn óunnið.

Eins og staðan er nú hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið ekki gefið út neina opinbera dreif- og fjarnámsstefnu. Litið hefur verið á dreifnám sem einn möguleika sem skólar geti nýtt sér í kennsluháttum sínum til að bæta þjónustu sína og skólunum í raun veitt sjálfstæði um það hvernig þeir kjósa að þróa þessa möguleika áfram.

Fjarnám varð upphaflega til hér á landi til að auðvelda aðgengi fólks í námi og gefa því möguleika á að læra sjálfstætt, óháð búsetu og fjárhagslegri stöðu, af persónulegum aðstæðum. Og eftir því sem ég hef grafist fyrir um sýnist mér að fyrsta fjarnámið hafi verið bréfaskóli Sambands ísl. samvinnufélaga sem hóf starfsemi sína 1. október 1940 með 280 nemendum. Sagan er því löng og viðeigandi að það sé hv. þingmaður Framsóknarflokksins sem hefji umræðuna í dag í þessu ljósi. Síðan hefur samfélagið þróast mikið og ný tækni hefur gerbreytt aðstæðum þannig að bréfaskólarnir gömlu hafa orðið tæknivæddari. Nú sjáum við gríðarlega möguleika með tilkomu netsins og tilkomu æ betri tækni til að nýta það sem nútímalegan bréfaskóla, ef svo má að orði komast.

Almennt hefur áherslan verið sú að fjarnám sé byggt upp sem hluti af almennu námsframboði hvers skóla, skólar hafi síðan svigrúm til að þróa það eftir sínum hætti. Það skýrir kannski að það eru talsvert mismunandi áherslur milli ólíkra skólastofnana hvernig þær hafa þróað sitt sérnám. Hins vegar hefur verið lögð áhersla á samstarf skóla um að þróa námsframboð, kennslufræði og tækni í stoðþjónustu og menntamálaráðuneytið hefur stutt talsvert við þróun grunngerðarinnar fyrir fjarnámið, þ.e. upplýsingakerfin, stoðþjónustuna og þróað kennslufræðina.

Menntamálaráðuneytið hefur stutt við uppbyggingu grunnkerfis fyrir háskóla og símenntunarmiðstöðvar vegna fjarkennslu, það er starfrækt gagnaflutningsnet sem tengir saman háskóla, símenntunarmiðstöðvar og útibú þeirra víða um land og eins og hv. þingmenn þekkja er það samstarf oft mjög gefandi þegar þessar stofnanir koma saman þó að litlar séu. Enn fremur hefur menntamálaráðuneytið komið á stofn þekkingarsetrum á nokkrum stöðum á landinu þar sem veitt er stoðþjónusta við nemendur vegna fjar- og dreifnáms. Menntamálaráðuneytið hefur enn fremur beint því til allra háskóla að þeir skuli setja sér stefnu um fjarnám og ráðuneytið hefur staðið fyrir verkefni í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar um þróun netháskóla þar sem kerfisbundið verði byggt upp námsframboð í fjar- og dreifnámi og þjónusta við nemendur á þessu sviði aukin. Framtíðarsýnin hefur verið sú að nemendum standi til boða fjölbreytt námsframboð á háskólastigi og að gæði náms- og stoðþjónustu verði þróuð áfram.

Menntamálaráðuneytið hefur enn fremur unnið að greiningu á stöðu fjarnáms í framhaldsskólum. Þar liggja fyrir ákveðin drög að skýrslu um stöðuna. Fjarnámið er með mismunandi hætti í framhaldsskólum og hefur þróast á forsendum skólanna. Það er mikilvægt að hafa í huga að fjarnám á framhaldsskólastigi þróar námshætti í hverjum skóla og nýtist nemendum sem eru í staðbundnu námi. Hins vegar, eins og kom fram í umræðum í gær þegar við ræddum um framhaldsdeildir, held ég að það liggi fyrir mikill áhugi á því víða um land að þetta líkan eða þessar tilraunir verði þróaðar áfram þannig að við sjáum fleiri framhaldsdeildir sem verði þá starfræktar með hjálp fjarnámsins en samt með umsjón á hverjum stað. Ég held að þetta sé að mörgu leyti mjög áhugaverð framtíðarsýn fyrir framhaldsskólana í landinu.

Niðurskurðurinn sem nú er, sem vissulega er erfiður, gefur okkur tilefni til að skoða uppbyggingu fjarnámsins með kerfisbundnari hætti og það voru, eins og hér hefur komið fram áður, erfiðar ákvarðanir og reynt var að horfa á kjarnaþjónustuna og fremur að skera niður af viðbótarþjónustunni. Hins vegar hefur uppgangurinn í fjar- og dreifnámi verið mikill undanfarin ár. Sífellt fleiri nemendur stunda nám sitt á þennan hátt en námið sem í boði er hefur þróast, getum við sagt, út frá forsendum á hverjum stað. Þessi niðurskurður gefur okkur kannski tilefni til að reyna að samræma krafta okkar betur, skoða markvisst hvernig við getum skipt með okkur verkum þannig að áfram verði sem fjölbreytilegast nám í framboði í fjarnámi. Öll svið menntunar sem eru í boði í dagskóla verði einnig í boði í dreifnámi og skólarnir skipti með sér verkum varðandi hvað verði í boði frá hverjum stað því að í raun og veru skiptir kannski ekki öllu máli hvar skóli sem býður t.d. upp á öflugt sérnám í tilteknum greinum er staðsettur. Þannig væri hægt að ná fram ákveðnum samlegðaráhrifum og það þurfum við að skoða.

Hvað varðar frekari stefnumótun hefur menntamálaráðuneytið nýlega unnið að greiningu á stöðu fjarnámsins, eins og ég nefndi, og ég hallast að því að það sé mjög æskilegt að fá fólk af ólíkum skólastigum, ólíkum landshlutum og hagsmunaaðila til að koma saman og ræða framtíðarstefnuna út frá þessari nýju og breyttu stöðu í efnahagslífi þjóðarinnar. Hvernig við getum áfram byggt upp (Forseti hringir.) fjarnám en náð um leið fram sem mestum samlegðaráhrifum. Ég mun ljúka svörum mínum í seinna innleggi mínu.