138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá gagnlegu umræðu sem hefur farið hérna fram. Mjög margt áhugavert kom fram. Ég vona svo sannarlega að hæstv. menntamálaráðherra muni fara út úr þingsal með það í huga hvernig hægt sé að draga úr áhrifum niðurskurðar á fjar- og dreifnám. Ég vona svo sannarlega líka að skipaður verði þessi starfshópur sem ég spurði um þar sem mótuð verði opinber dreif- og fjarnámsstefna.

Þó að ég sé sammála mörgu sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum er ég samt sem áður þeirrar skoðunar að vegna þess hvernig efnahagsástandið er hérna sé nauðsynlegt að við skerpum nú á því sem við viljum leggja áherslu á og veljum og höfnum. Þá tel ég mjög mikilvægt að við veljum að byggja upp fjar- og dreifnám en gerum það á eins markvissan máta og við mögulega getum, að við hvetjum til þess að þeir framhaldsskólar sem hafa verið að byggja upp fjar- og dreifnám vinni saman. Ef þessir skólar eru ekki tilbúnir til að gera það sjálfviljugir getur hæstv. ráðherra hreinlega þurft að koma með tilmæli um það.

Smæðin hefur náttúrlega háð mörgum af þessum skólum og ég tel að fjar- og dreifnám sé sóknarfæri, það sé möguleiki að byggja upp jafnvel einn netframhaldsskóla þar sem skólarnir taka sig saman og bjóða heildstætt fjar- og dreifnám úti um allt land, ekki bara á landsbyggðinni heldur á öllu landinu, og sama t.d. varðandi netháskóla. Þá skiptir náttúrlega miklu máli að skoða samstarfið á milli t.d. fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna og svo aftur háskólanna, hvernig hægt sé að nýta það net sem við höfum byggt upp til að við gætum hugsanlega búið til Netháskóla Íslands.

Það er mjög margt sem við þurfum að skoða og við getum ekki bara vaðið blint í þennan niðurskurð, heldur verðum við að marka (Forseti hringir.) okkur stefnu og velja hvar við ætlum að forgangsraða.