138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:48]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum í dag, frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur, er ákaflega mikilvægt. Það er mjög ánægjulegt að sjá að að undanförnu hafa verið að koma inn í þingið mál sem lúta að alls kyns lýðræðisumbótum. Auk þessa máls má nefna frumvarp til laga um stjórnlagaþing, sem við ræðum á eftir, og eins tvö frumvörp sem lúta að persónukjöri, annars vegar í sveitarstjórnum og hins vegar til Alþingis. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að ég tel að tími hafi verið til kominn að taka þessar lýðræðisumbætur fyrir og breyta vinnubrögðum. Stjórnarskráin okkar er orðin 65 ára gömul og kannski tími til kominn að við veltum því fyrir okkur að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það hefur oft og tíðum komið til tals á undanförnum árum að gera slíkt en aldrei hefur náðst samstaða um það. Mér heyrist hins vegar í þessari umræðu, miðað við þau orð sem hér hafa verið látin falla — fulltrúar flestra flokka hafa lýst þeirri skoðun sinni að flokkar þeirra styðji þjóðaratkvæðagreiðslur og það er vel. Það er ef til vill smáblæbrigðamunur á því hvernig menn vilja haga slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég held að það sé bara útfærsluatriði sem við hljótum að leysa í allsherjarnefnd þegar við fáum málið til umfjöllunar.

Það er þannig í dag að í stjórnarskránni er í þremur tilvikum heimilt að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er í 11. gr., ef þrír fjórðu þingmanna hafa krafist þess að forseti verði leystur frá embætti áður en kjörtímabili lýkur. Það er í 26. gr., ef forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar eins og segir í frumvarpinu. Í þessari umræðu hefur verið komið inn á það sem gerðist eftir að forseti synjaði staðfestingu svokallaðs fjölmiðlafrumvarps, að það hafi ekki verið til fyrirmyndar sem gerðist þá og ég held að við getum lært af því. Þriðja tilvikið er svo í 79. gr., ef Alþingi samþykki breytingar á kirkjuskipan. Þetta eru einu þrjú atriðin í stjórnarskránni þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla er heimil.

Við lifum breytta tíma og kallað er á allsherjarendurskoðun, ekki bara vegna þess sem gerðist — af því að oft er vitnað til þess, frú forseti — í kjölfar bankahrunsins og svokallaðrar búsáhaldabyltingar. Menn rekja umræddar lýðræðisumbætur oft til þess að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Ég er ekki endilega viss um að svo sé. Ég held að það sé einfaldlega kall tímans, og afleiðing af ýmsu sem hefur verið að gerast á undanförnum árum, að við stöndum í þeim sporum nú að vera að ræða öll þessi frumvörp sem lúta að lýðræðisumbótum.

Það hefur líka verið komið inn á það í þessari umræðu að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gerði að umtalsefni hugmyndir um að gera landið að einu kjördæmi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé það sem koma skuli og þá ekki endilega vegna þess að það muni minnka hrepparíg og kjördæmapot, eins og margir tala um, og að einn og sami þingmaðurinn sé þá þingmaður Reykvíkinga og Ísfirðinga. Mér finnst það kannski ekki endilega vera aðalatriðið í þessu heldur er þetta fyrst og fremst mannréttindamál, spurning um vægi atkvæða. Ég hef því verið þeirrar skoðunar að við eigum að gera landið að einu kjördæmi. Það er líka gaman að segja frá því, frú forseti, að það hefur sýnt sig í rannsóknum að færa megi rök fyrir því að það muni gagnast konum sérstaklega, að konum á Alþingi muni þá fjölga. Mér finnst það ekki skemma fyrir þeirri hugmynd að gera landið að einu kjördæmi.

Í þessari umræðu hefur einnig komið til tals frumvarp Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu en hv. þm. Þór Saari er 1. flutningsmaður þess. Ég hafði því miður ekki tök á að taka þátt í umræðunum sem fóru fram um það frumvarp en mér sýnist, eftir að vera búin að lesa þessi tvö frumvörp saman, að vel megi vera að hægt sé að splæsa þeim á einhvern hátt saman, gera eitt frumvarp úr þeim báðum. En til þess þurfa menn að ná ákveðinni lendingu og málamiðlun. Við munum líklega fara yfir það í allsherjarnefnd og sjá hvort við náum saman um það. Ég heyri það á máli hæstv. forsætisráðherra í umræðum um þetta mál að henni finnst koma til greina að skoða það og ég get lýst mig sammála því.

Ég vil gera tvö atriði til viðbótar að umtalsefni en það lýtur að málflutningi hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur hér fyrr í dag. Ég fór í andsvar við hv. þingmann vegna þess en það var varðandi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil ítreka það sem ég sagði í andsvari mínu við hv. þingmann að ég tel að það geti verið afskaplega erfitt fyrir þingmenn að ganga gegn niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það getur orðið mjög erfitt. Ég lít á það sem nokkurs konar pólitíska skuld, alla vega fyrir mína parta. Ég lít svo á að ég sé siðferðislega bundin af því. Ef mál er sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og niðurstaðan er 80–90% með einhverjum tilteknum kosti ætti ég alla vega mjög erfitt með að standa gegn því. Ég hef engar áhyggjur af því að menn fari að leika sér að því að setja léttvæg mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að menn muni bera það mikla virðingu fyrir þessari aðferð að menn muni einfaldlega ekki gera það.

Hv. þm. Ólöf Nordal spurði einmitt að því fyrr í dag hvers konar mál við mundum setja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er spurning sem við eigum svo sannarlega að velta fyrir okkur í umfjöllun nefndarinnar. Við eigum að reyna að átta okkur á því hvað það er sem við viljum fá fram með þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég lít svo á að það hljóti að vera mál sem lúta að einhvers konar framtíðarstefnumörkun í samfélaginu, ekki dægurmál sem lúta t.d. að þyngingu refsinga eins og nefnt var hér — þegar upp kemur eitthvert mál í samfélaginu og menn fara að tala um að refsingar séu of léttvægar, nú þurfi að þyngja refsingar og þjóðin þurfi að greiða atkvæði um það. Skattamálum má líka velta upp. Mér finnst það ekki koma til greina. Það vill enginn borga hærri skatta eða alla vega afar fáir sem ég þekki. Ef spurning um hærri skatta væri send í þjóðaratkvæðagreiðslu er alveg ljóst, held ég, hver niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrði. Ég held að við hljótum að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu sem lúta að einhvers konar framtíðarstefnumörkun í stórum málum.

Innganga í Evrópusambandið — frumvarpið sem liggur fyrir er tengt því — lýtur t.d. að framtíðarstefnumörkun Íslands og hvernig hagsmunum Íslands er best borgið til lengri tíma litið. Ef niðurstaða viðræðna við Evrópusambandið, um inngöngu Íslands, verður fyrsta málið sem verður sett í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslumál þá finnst mér það vera talandi dæmi um að það eru slík mál sem eiga að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frú forseti. Þetta er 1. umr. um málið og ég ætla í sjálfu sér ekki að segja mikið meira í bili. Við eigum eftir að fara yfir þetta í allsherjarnefnd. Væntanlega og vonandi náum við að taka þetta út þó vissulega liggi mjög mörg mál fyrir í allsherjarnefnd, mörg stór lýðræðismál eins og ég nefndi áðan, persónukjörið og stjórnlagaþingið. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með að frumvarpið er komið fram og ég vona að við getum náð einhverri samstöðu um það í allsherjarnefnd að splæsa saman þessum tveimur málum, annars vegar frá Hreyfingunni og hins vegar frá forsætisráðherra, um það að (Gripið fram í.) — menn gera athugasemd utan úr salnum, heyri ég, við það að ég skuli nota orðið splæsa. (Gripið fram í.) Vanir splæsarar eru í salnum, segir þá hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. En það sem ég á við er að ef okkur auðnast að búa til eitt frumvarp úr þessum tveimur þá held ég að það væri mjög jákvætt. Það mundi breikka grundvöllinn undir það að þverpólitísk samstaða næðist um að fara fram með þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarp. Ég ítreka það þá að menn verða að vera tilbúnir til að slá af ákveðnum þáttum hvorum megin sem er.