138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:03]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna áhuga hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar á frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur. Mig langar að tæpa aðeins á því atriði sem hann var að ræða um varðandi Lýðræðisstofu. Ástæðan fyrir því að þau ákvæði eru inni í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu er ekki sú að þar hafi menn verið að kaupa atkvæði vegna stuðnings við málið heldur hefur það verið á stefnu okkar frá upphafi að Evrópusambandsmálið yrði fyrst og fremst útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki væri hægt að taka afstöðu til þess fyrr en búið væri að ganga frá umsókn og leggja málið fyrir þjóðina. Við lögðum því einfaldlega mikla áherslu á það. Utanríkisráðherra leitaði á þeim tíma mjög eftir samráði við alla flokka á þingi um það mál og kom m.a. til okkar að fyrra bragði og spurði hvað okkur fyndist þurfa að vera þarna inni til þess að við værum samþykk aðildarumsókninni. Við tjáðum utanríkisráðherra það og unnum svo þennan kafla um Lýðræðisstofu með formanni og varaformanni utanríkismálanefndar og fögnuðum mjög þeim áfanga sem virtist vera að nást á þinginu að reyna að ná virkilega þverpólitískri sátt í mikilvægu máli.

Þó að, eins og ég sagði fyrr í dag, leiðir hafi svo skilið þegar kom að atkvæðagreiðslunni sjálfri, var það út af öðru máli. En sú staðreynd að Lýðræðisstofan er inni í aðildarumsóknarfrumvarpinu eða greinargerðinni þar ætti að vera fagnaðarefni. Það tryggir einfaldlega mjög vandaða og málefnalega umfjöllun um málið þegar og ef að því kemur að það þarf að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú atkvæðagreiðsla verður þá væntanlega eins vönduð og mögulegt er.