138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:06]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Eins og ég sagði áðan veit ég sjálfur ekki hvers vegna þetta ákvæði er ekki í frumvarpi forsætisráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það kann að vera að einfaldlega sé gert ráð fyrir því að það sé svo sjálfsagt mál að allsherjarnefnd fjalli um þetta og komi því inn í frumvarpið þegar það kemur í nefndina að ekki þurfi einu sinni að gera ráð fyrir því. En þetta er að mínu viti mjög mikilvægt atriði. Þar sem ég þekki til og bjó í mörg ár, í New York í Bandaríkjunum, er til staðar sams konar fyrirbæri í stjórnsýslunni sem fjallar hlutlaust um mál sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslur eða fylkisatkvæðagreiðslur eða almennar atkvæðagreiðslur í borginni. Þar varð ég vitni að vinnubrögðum sem mér fannst til þvílíkrar fyrirmyndar hvað lýðræði varðar þegar mjög flókin og viðamikil mál voru tekin og brotin niður og einfölduð á máli sem allir skildu og voru pólitískt hlutlaust orðuð og gerðu almenningi, Jóni Jónssyni af götunni, auðveldlega kleift að taka ákvörðun. Þarna var um að ræða vinnubrögð sem ég hreinlega dáðist að og þaðan er þessi hugmynd mín komin. Ég veit að þetta er til staðar í mjög mörgum fylkjum, alla vega Bandaríkjanna og víðar í Evrópu. Það skiptir mjög miklu máli og jafnvel grundvallarmáli þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslum með hvaða hætti þau mál eru lögð fram og að það sé alls ekki gert á flokkspólitískum nótum.