138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög áhugaverða ræðu sem hann flutti af miklum eldmóð. Ég ætla að fara yfir það betur hér á eftir.

Mig langar að spyrja hann hér nokkurra spurninga, þá í fyrsta lagi varðandi það sem kom fram í blöðunum í gær þar sem kom í ljós að fyrrverandi þingmaður Grétar Mar hefði keypt bát fyrir þremur vikum og að hann hafði vitað hvað í vændum var í gegnum Guðjón Arnar Kristjánsson, sem er sérstakur pólitískur ráðgjafi ráðherrans í ráðuneytinu. Hvað finnist hæstv. ráðherra um þetta?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra varðandi það að maður má leigja til sín fimm tonn í einu í skötusel. Má maður með bát sem á tíu tonn eða eitthvað umfram þessar heimildir, varanlega úthlutaðar, leigja úr þessum potti áður en hann fer niður á núllið?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hversu margir nýir bátar reiknar ráðherrann með að hefji útgerð eða beina sókn í skötusel?