138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

lög um greiðslujöfnun.

[15:28]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég er með þskj. 69, frumvarpið sjálft án breytinga fyrir framan mig og þar stendur m.a.:

„Tryggt þarf að vera að eftirgjöf skulda sem sannanlega eru glataðar myndi ekki skattstofn hjá þeim sem hennar nýtur.“

Bara svo því sé haldið til haga.

Mig langar að spyrja annarrar spurningar og það er um hraðann á frumvarpinu. Frumvarpið fór í gegnum þingið á einni viku og það var réttlætt með því að lögin þyrftu að taka gildi um mánaðamótin október/nóvember svo almenningur fengi notið lækkunar afborgana um þau mánaðamót. Komið hefur í ljós að það gekk ekki eftir og engin lækkun kemur fyrir næstu mánaðamót. Nú væri gott ef hæstv. Árni Páll Árnason gæti svarað mér því hvers vegna lækkunin gekk ekki í gegn um síðustu mánaðamót eða var þetta kannski sagt til að hraða málinu í gegnum þingið svo fólk áttaði sig ekki á um hvað málið snerist?