138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hefst nú taka tvö við að reyna að fá hæstv. ráðherra til að svara mjög einfaldri spurningu sem var þessi: Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan, hann orðaði þetta alveg rétt, miklu betur en ég hef gert nokkurn tíma. Hann talaði um að þær heimildir sem hann fái séu altækar. Það er alveg rétt. Hæstv. ráðherra fær hér gríðarlegar heimildir. Ef Alþingi samþykkir þetta frumvarp afsalar það sér valdi, sem það hefur hingað til haft, til sjávarútvegsráðherrans með altækum hætti. Ég spurði einfaldlega hæstv. ráðherra þeirrar spurningar hvernig hann hygðist nýta sér þetta mikla vald ef Alþingi samþykkti á annað borð að veita honum það. Ég vona svo sannarlega að Alþingi breyti þessu frumvarpi þannig að þetta mikla vald hæstv. ráðherra verði takmarkað. Alþingi hefur komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að hafa skoðun á því til að mynda hver geymslurétturinn á að vera. Hér segir hæstv. ráðherra: Jú, ég vil hafa þetta 15%, en eftir að ég hef fengið umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar vil ég geta ráðið því ef ég tel slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar. Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra vill fá algert vald yfir því hvernig hann fer með þessi mál að öðru leyti. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvaða svigrúm hann telur sig þurfa til að beita þessari heimild.

Sama á við varðandi vinnsluþáttinn. Hér er verið að opna heimild til þess að hæstv. ráðherra geti ráðstafað allt að 70% af uppsjávaraflanum til vinnslu. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann vildi fara hærra en 30% sem fóru af makrílnum í vinnslu. Hæstv ráðherra svaraði því ekki. Ég spurði hann hvort hann hygðist beita þessu í öðrum uppsjávartegundum. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki. Hæstv. ráðherra hefur að vísu tækifæri til þess þegar hann kemur í ræðustólinn til að fara yfir efni umræðunnar hér á eftir. Ég óska þá eftir því í annað sinn, (Forseti hringir.) ef ekki í þriðja sinn, að hæstv. ráðherra svari þessum einföldu spurningum (Forseti hringir.) þannig að Alþingi hafi einhverja hugmynd um hvað það er sem hæstv. ráðherra fer hér fram á.